Aldarfjórðungur er liðinn, en við munum samt einvígisskák þína við Pilnik, þegar þú lékst óvænt f og g-peðunum fram og fórnaðir síðan biskupi og hróki til að ljúka einni fallegustu skák, sem sézt hefur.
Kjark þurfti til að tefla skákina á þennan hátt og vinna hana. Þann kjark þarf enn í dag, því að nú er meira í húfi en ein skák. Þú ert orðinn forseti Alþjóðlega skáksambandsins og þar með fremsti gæzlumaður drengskapar í þeim leik.
Þitt Alþjóðlega skáksamband ber ábyrgð á, að haldin hafa verið ógild heimsmeistaraeinvígi, einvígi siðleysingja við skákmann, einvígi sovézkra ódrengja við einstakling, sem þeim er ekki að skapi.
Þú getur spurt formenn annarra alþjóðlegra íþróttasambanda og færð alltaf sama svarið: Það er útilokað, að keppni fari fram við þær aðstæður, að fjölskyldu annars aðilans sé haldið í gíslingu af hálfu ríkisvalds hins aðilans.
Þeir munu líka segja þér, að Karpov sé ekki heimsmeistari í skák frekar en höfundur þessa leiðara. Karpov er bara þægðardrengur kerfis og hefur látið sér líka að taka þátt í einstaklega svívirðilegu athæfi Sovétríkjanna.
Hvorki Karpov né leyniþjónustumaðurinn Baturinski, sem stjórnar skákmálum Sovétríkjanna, hafa neina hugmynd um drengskap í leik. Þetta gat í tilverunni eiga þeir sameiginlegt með ráðamönnum Sovétríkjanna.
Frá sjónarmiði þessara ódrengja eru öll brögð réttlætanleg, ef þau leiða til formlegs sigurs. Skiptir þá engu, að sigurinn skorti innihald. Þeir telja sig verða að láta Karpov vinna sigur á hinum landflótta erkióvini, Kortsjnoj.
Í fjögur ár hafa þeir neitað eiginkonu og syni Kortsjnoj um leyfi til að flytjast úr landi. Með því eru þeir að hefna sín á Kortsjnoj og halda honum í úlfakreppu. Þetta eru vélrænar skepnur, allt frá Brezhnev upp í Karpov.
Nú er haft fyrir satt, að oddamenn alþjóðasamtaka verði að sýna lipurð. Og þú varst þar á ofan kosinn forseti með úrslitaatkvæði Baturinskis leyniþjónustumanns. Þér finnst sjálfsagt nauðsynlegt að tala við skepnur eins og væru þær menn.
Okkur, sem heima sitjum, varðar ekki um orðalag. En við ætlumst til, að þú komir því á framfæri við fangabúðastjórana, að atferli þeirra sé handan mannlegra hugmynda um drengskap í leik og samskipti yfir landamæri.
Við ætlumst líka til þess, að þú segir þessu illþýði, svo ekki verði um villzt, að þú sem forseti Alþjóðlega skáksambandsins munir aldrei þola, að næsta einvígi um heimsmeistaratitilinn verði háð upp á þeirra viðbjóðslegu býti.
Við ætlumst loks til, að þú segir þeim að skila umsvifalaust konu og syni Kortsjnoj. Að öðrum kosti munir þú sem forseti Alþjóðlega skáksambandsins og fremsti gæzlumaður drengskapar í skák lýsa Karpov ógildan sem heimsmeistara.
Ef Karpov telur sig ekki geta mætt til leiks við eðlilegar aðstæður, á að svipta hann titli og afhenda tignina áskorandanum. Ef Karpov hefur ekki reisn til að skilja þetta getur enginn sagt honum það nema þú.
Lítils er vert að sitja í alþjóðlegu forsæti yfir íþrótt, sem meira eða minna er rekin upp á býti ódrengja. Og til þess að gerast ekki skósveinn Baturínskis, þarftu aðeins sama kjarkinn og í skákinni gegn Pilnik.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið