Brenglað lýðræði

Greinar

Frá íslenzkum sjónarhóli er sérkennilegt, að árum og áratugum saman virðist framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum hafa verið á þann hátt, að mikill vafi getur leikið á úrslitum. Hér á landi hefur verið og er óhugsandi, að lagaþrætur geti risið um, hvaða atkvæði séu gild.

Endurvéltalning gataðra atkvæðaseðla er engin nýjung í Bandaríkjunum. Menn hafa kosningar eftir kosningar vitað, að við hverja endurvéltalningu fyllist gólfið af litlum miðum, sem koma úr götunum. Því oftar, sem véltalið er, þeim mun fleiri atkvæði verða gild.

Augljóst er, að úrslit kosninga mega ekki hanga á bláþræði mats á því, hvort götunarvélin hafi skilað hlutverki sínu eða hvort miðinn hangi enn í gatinu. Þótt menn viti þetta, hafa menn áfram notað þessa hættulegu tækni við atkvæðagreiðslur víðs vegar í Bandaríkjunum.

Eftir þá lögfræðilegu úfa, sem nú eru risnir vestan hafs, er útilokað, að þessi aðferð verði framar notuð. Þótt talsmenn frambjóðandans Bush segi véltalningu öruggari en handtalningu, er ljóst af dæmunum frá Flórída, að véltalning í götunarvélum er algerlega út í hött.

Hér á landi væri óhugsandi að deila um, hvenær skuli hætta að telja. Hér dytti engum í hug, að hætt yrði að telja fyrr en öll vafaatriði hafa verið skýrð og úrskurðuð. Enda hafa íslenzkir lögmenn enga atvinnu af að vefengja, að birtar atkvæðatölur endurspegli vilja kjósenda.

Bandaríkjamenn þurfa ennfremur að staðla atkvæðaseðla, svo að ekki verði notaðir seðlar, þar sem nöfn frambjóðenda eru í tveimur dálkum og atkvæðareiturinn í einum dálki milli þeirra. Þessi undarlega tegund seðla hefur vakið lögfræðilegar deilur til viðbótar hinum.

Þar sem búið er að vefengja með gildum rökum, að götunarvélar skili hlutverki sínu og að undarlegir atkvæðaseðlar skili hlutverki sínu, fæst ekki lýðræðislega heiðarleg niðurstaða í Flórída, nema endurtalið sé í öllu ríkinu og endurkosið í kjördæmum skrítnu seðlanna.

Þar sem bandaríska lýðræðiskerfið hefur ekki burði til að taka heiðarlega á því undirstöðuatriði lýðræðis, að vilji kjósenda fái að koma í ljós, verður ekki endurtalið meira og enn síður endurkosið. Bush verður því að lokum skipaður forseti án þess að hafa umboð kjósenda.

Hinn vestræni heimur þarf að sæta því í fjögur ár, að forusturíkið hafi ekki lýðræðislega kjörinn forseta. Sú byrði bætist við hin augljósu vandræði af breytingu þjóðskipulagsins úr lýðræði yfir í auðræði, þar sem fjármagn ræður mestu um framgang stjórnmálamanna.

Svo er komið, að bandarískir þingmenn geta fremur talizt umboðsmenn hagsmunaaðilanna, sem fjármögnuðu kosningabaráttu þeirra, heldur en kjósenda. Að minnsta kosti hagar mikill hluti þeirra sér þannig á þingi, að ekki er hægt að efast um, hverjum þeir þjóna í raun.

Tilraunir til að koma böndum á fjárausturinn í bandarískum kosningum hafa ekki borið neinn árangur. Þeir forsetaframbjóðendur, sem vildu gera eitthvað í málinu, voru felldir í forvali innan flokkanna. Ljóst er því, að auðræði mun enn vaxa í bandarísku þjóðskipulagi.

Bandaríkjamenn geta lagað og munu væntanlega laga tæknilega framkvæmd kosninga og talningar, svo að þeir verði ekki lengur að athlægi meðal vestrænna þjóða. Þeir munu vafalítið hafa burði til að koma kosningum hið fyrsta í það horf, að þær endurspegli vilja kjósenda.

Hitt verður þyngra að hamla gegn yfirfærslu lýðræðis í auðræði. Þótt allt verði með lýðræðislega felldu á yfirborðinu, ríkir auðræði í auknum mæli undir niðri.

Jónas Kristjánsson

DV