Terry Jones skrifar í Observer í dag um sérstætt tungumál Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, helztu sölumanna fyrirhugaðs stríðs við Írak. Þeir saka andstæðinga sína í röðum ráðamanna Vesturlanda um heigulshátt, rétt eins og það sé vottur um hugrekki að sitja við skrifborð á Vesturlöndum og láta henda sprengjum á fátæklinga í þriðja heiminum. Þeir segjast fylgja forskriftum alþjóðasamfélagsins, þótt allar skoðanakannanir sýni, að gífurlegur meirihluti nærri allra vestrænna þjóða og langflestra annarra þjóða sé andvígur fyrirhuguðu stríði. Orðin “cowardice” og “international community” hafa fengið brenglaða merkingu í munni helztu sölumanna dauðans um þessar mundir. Þetta minnir á tungumálið Newspeak í “1984”, skáldsögu George Orwell.