Brennivíns- og bjórborgin

Greinar

Lögreglustjórinn í Reykjavík sagði í blaðaviðtali í gær, að hann ætlaði að biðja um lista yfir veitingahús, sem eru án vínveitingaleyfis, en veita eigi að síður vín. Þessi merkilega yfirlýsing segir milli lína, að lögreglustjórinn hafi þá ekki enn látið semja slíkan lista.

Komið hefur fram í fréttum, að veitingahúsið, sem menn sækja helzt, áður en þeir drepa fólk, hefur í mánuð veitt vín án leyfis. Nágrannar hafa óspart og árangurslaust kvartað út af þessum illræmda stað, sem er að hluta í eigu sonar lögreglustjórans í Reykjavík.

Lögreglustjórinn sagði í sama blaðaviðtali, að hann hefði beðið lögfræðideild sína um að vinna af kappi við að finna hreint og klárt mál um brot á lögum um auglýsingar á áfengi. Þessi merkilega yfirlýsing segir milli lína, að kapp deildarinnar hafi verið einkar lítið.

Fyrir vankunnáttu tapaðist mál fyrir héraðsdómi, þar sem ekki var um að ræða hreina áfengisauglýsinu, heldur dulbúið millistig auglýsingar og fréttar. Þessi úrskurður skelfdi lögreglustjórann svo mjög, að hann þorir ekki að láta dómstóla reyna á fleiri mál að sinni.

Lögreglustjóraembættið í Reykjavík er ekki eitt um skort á athafnavilja gegn brotum, sem tengjast áfengi. Dómsmálaráðuneytið hefur tekið fram fyrir hendur lögreglunnar og veitt leyfi margkærðum veitingamanni, sem ítrekað brýtur áfengis- og barnaverndarlög.

Borgarstjórnin í Reykjavík er engu skárri og vísar mest á stofnanir ríkisins, sem eigi að halda uppi lögum og reglu í borginni. Um mitt síðasta ár ætlaði hún að hætta að mæla með vínveitingaleyfum í borginni, en hefur ekki enn komið samþykktinni til framkvæmda.

Getuleysi stjórnvalda er magnað með hótunum áfengissala, sem meðal annars segjast siga Evrópusambandinu á stjórnvöld, ef þau makki ekki rétt. Þeir hafa þannig komizt upp með að þverbrjóta lög um bann við áfengisauglýsingum og færa sig hratt upp á skaftið.

Fyrirhugaðar öryggismyndavélar í miðborginni eru eini ljósi punkturinn í almennri uppgjöf þeirra stjórnvalda, sem stjórna brennivínsmálum borgarinnar. Erlend reynsla er fyrir því, að slíkar vélar snarfækka minni og meiri háttar glæpum í miðborgum.

Fyrir nokkrum áratugum var ástandið svipað í miðborg Amsterdam og borgin eins illræmd og Reykjavík er að verða. Þá var óeirðalögreglan kölluð til að hreinsa miðborgina. Síðan geta borgarar og ferðamenn gengið óáreittir að nóttu og degi um miðborg Amsterdams.

Það sama væri auðvitað hægt að gera hér, ef við hefðum lögreglustjóra með bein í nefinu, hvað sem núverandi lögreglustjóri segir. Lögreglustjóri með bein í nefi mundi afla sér stuðnings annarra stjórnvalda ríkis og borgar við að spúla ósómanum út úr miðborginni.

Hörð viðbrögð gegn brotum á lögum um áfengi og hliðstæðum lögum leysa ekki drykkjuvanda þjóðarinnar á einu bretti. En reynslan frá útlöndum sýnir, að slík viðbrögð draga úr afbrotum og ónæði, sem hljótast af ótæpilegri neyzlu áfengis og annarra fíkniefna.

Með núverandi getuleysi lögreglustjóra, dómsmálaráðuneytis, alþingis og borgarstjórnar er verið að afsiða ungu kynslóðina í borginni. Hún er í miðborginni að læra af fullorðnu drykkjurútunum hversu langt er hægt að ganga í að hætta að vera í húsum hæfur.

Því meira, sem fjallað er um þetta mál í fjölmiðlum, þeim mun ljósara verður, að embættis- og stjórnmálamenn hafa gersamlega brugðizt skyldu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV