Þegar ævi Jevgenís Prímakovs er rakin, er þess sjaldan getið, að hann tók háskólapróf sitt í hagfræði. Samt talar enginn um, að hann beri hagfræðiþekkingu með sér í stól forsætisráðherra Rússlands. Enda var það hagfræði Sovétríkjanna sálugu, sem hann lærði.
Prímakov gekk snemma í kommúnistaflokk Sovétríkjanna og var þar félagi fram í andlát flokksins. Hann var handgenginn Bresnjev Sovétleiðtoga, gerðist yfirmaður leyniþjónustunnar alræmdu, KGB, og var jafnan einn mesti kaldastríðsmaður Sovétríkjanna.
Frá gamalli tíð og fram á þennan dag hefur Prímakov látið sig málefni Miðausturlanda miklu varða og verið þar Vesturlöndum óþægur ljár í þúfu. Hann hefur til dæmis haldið verndarhendi yfir Saddam Hussein Íraksforseta og stutt yfirgang hans á alþjóðavettvangi.
Þegar Prímakov tók við embætti utanríkisráðherra af Kósírev fyrir þremur árum, breyttust samskipti austurs og vesturs snögglega til hins verra. Á valdatíma Kósírevs var Rússland á hraðri ferð inn í samfélag vestrænna þjóða. Prímakov sneri blaðinu við, snöggt og hart.
Pólitísk og hernaðarleg samskipti Rússlands og Vesturlanda hafa frosið á valdatíma Prímakovs. Áheyrnaraðild Rússa að sumum stofnunum Atlantshafsbandalagsins hefur ekki leitt til nálgunar austurs og vesturs, heldur verið notuð í hefðbundnum njósnatilgangi.
Aðild Rússa að stórveldafundum um Kosovo hefur lamað tilraunir Vesturlanda til að hafa hemil á Milosevits Serbíuforingja, sem nýtur eindregins stuðnings Prímakovs. Endurtekning Bosníuhryllings í Kosovo fer fram í skjóli hins nýja forsætisráðherra Rússlands.
Prímakov hefur líka eindregið stutt ríkjasambandið við Hvíta-Rússland hins róttæka harðlínumanns Lúkasjenkos, sem er verri einræðisherra en flestir aðrir slíkir hafa verið í Austur-Evrópu. Óhætt er því að fullyrða, að ákveðið mynztur sé í gerðum Prímakovs.
Eins og venjulega reyna spunamenn vestrænna utanríkisráðuneyta að gera gott úr ógæfunni og telja sér og öðrum trú um, að Prímakov sé í rauninni bezti karl. Þeir stagast meira að segja á, að Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi sungið með honum dúett.
Eystrasaltslöndin eiga ekki von á góðu hjá Prímakov. Vesturlönd eru ekki heldur búin að bíta úr nálinni. Þau munu komast að raun um, að hinn nýi forsætisráðherra Rússlands reynir af öllum mætti að koma í veg fyrir, að áhugamál þeirra nái fram að ganga í heiminum.
Afskipti Prímakovs af umheiminum munu öll hníga í þá átt að gera líf fólks ótryggara og erfiðara og dýrara en það var áður. Allur hans stjórnmálaferill frá upphafi og fram á síðasta dag hefur haft að meginþema að verða Vesturlöndum til sem mestra vandræða.
Því miður verður Prímakov miklu valdameiri forsætisráðherra en fyrirrennarar hans hafa verið. Þeir sátu upp á náð og miskunn Jeltsíns forseta, sem hefur verið að missa völdin úr höndum sér á síðustu vikum. Prímakov er því ekki eins háður honum og hinir voru.
Það væri hrein sjálfseyðingarhvöt Vesturlanda að halda áfram að kasta peningum í Rússland á valdatíma Primakovs. Hann mun ekki nota peningana skynsamlega í efnahagsmálum, heldur mun hann nota þá til að grafa undan vestrænum áhrifum í heiminum.
Menn gera of lítið úr ótíðindunum, þegar þeir segja Prímakov bara vera fastan fyrir. Réttara er að segja, að nú sé Breshnjev upprisinn í mynd Prímakovs.
Jónas Kristjánsson
DV