Breytið kvótafrumvarpinu.

Greinar

Lagafrumvarpið um kvótakerfi á öllum fiskveiðum er eitt magnaðasta framfaramál þjóðarinnar um þessar mundir. Það gefur vonir um, að loksins verði unnt að ná tökum á sókninni í helztu fiskistofnana og stemma stigu við ofveiði.

Frumvarpið hefur að vísu þann annmarka, að sjávarútvegsráðherra eru falin of mikil völd. Hann á að verða eins og landsliðseinvaldur í boltaíþróttum. Hann á einn að ráða heildarafla og skiptingu hans á veiðarfæri, skipategundir og skip.

Hagsmunaaðilar treysta Halldóri Ásgrímssyni vel til að fara með þessi völd. En ekki má klæðskerasauma lög utan á einstaka menn. Til dæmis gæti Matthías Bjarnason aftur orðið sjávarútvegsráðherra og misbeitt hinu víðtæka valdi.

Landssamband útvegsmanna hefur samþykkt, að aflakvótanum verði skipt á skip í hlutfalli við veiði þeirra á undanförnum þremur árum. Þessa tegund kvótaskiptingar hefði átt að binda í lögum í stað fríspils ráðherrans.

Þessi verður sennilega niðurstaða kvótaskiptingarinnar. Hún ætti að geta létt þrýstingi af sjávarútvegsráðherranum. Einföld þríliða kemur í stað ferðalaga þrýstihópa á fund ráðherra. Reikningsdæmi kemur í stað pots.

Viðmiðunin við afla þriggja síðustu ára leiðir til, að hinir duglegu fá meira í sinn hlut. Aðrar tegundir kvótaskiptingar hefðu fremur kynt undir meðalmennskunni og þar með hækkað heildarkostnaðinn við útgerð íslenzkra fiskiskipa.

Tryggja þarf, að útgerðarmenn geti ekki látið fylla kvótann á hálfu ári og síðan vælt út viðbótarleyfi í ráðuneytinu á þeim forsendum, að atvinnuleysi blasi við. Hinn upphaflegi kvóti verður að gilda undanbragðalaust.

Einnig þarf að tryggja, að aflatillögur Hafrannsóknastofnunarinnar verði ekki notaðar bara til hliðsjónar. Ástand samra stofna er orðið svo alvarlegt, að niðurstöðutölur vísindamanna verða að fá að gilda klárt og kvitt.

Ennfremur ætti frumvarpið að leyfa, að handhafar kvóta geti skipzt á þeim, selt þá, lánað eða leigt, án afskipta opinberra aðila, en séu þó skyldir að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu slík viðskipti eða millifærslur.

Kvótaverzlun er líkleg til að gera kerfið sveigjanlegra og færa útgerðina í auknum mæli til þeirra, sem hafa arðbærastan rekstur, mestan árangur með minnstum tilkostnaði. Kvótakerfi ber einmitt að stuðla að slíkri tilfærslu.

Loks ætti frumvarpið að gera ríkinu beinlínis kleift að selja kvótana í stað þess að gefa þá. Kvótaskipting er í eðli sínu viðurkenning á, að um sé að ræða takmarkaða auðlind, sem á að vera í eigu þjóðarheildarinnar.

Hér hefur verið lagt til, að kvótalögin veiti ráðherra ekki frelsi til að velja aðra kvótaskiptingu en þá, sem miðuð er við skip og fyrra aflamagn. Og ekki frelsi til að velja annað aflahámark en fiskifræðinganna. Og ekki svigrúm til að anza væli plássapotara.

Hér hefur líka verið lagt til, að kvótalögin veiti svigrúm til sölu ríkisins á kvótum og frjálsri verzlun með þessa kvóta, svo að sjávarútvegurinn sé ekki frystur í núverandi ástandi, heldur haldi áfram að þróast.

Með slíkum breytingum væri frumvarpið um kvótaskiptingu orðið að virku tæki til að efla fiskistofnana, auka hagkvæmni í sjávarútvegi og losna við slagsmál þrýstihópa. En í óbreyttu formi er það þó betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV