Breytilegt lífsgæðamat

Greinar

Íslendingar eru á helmingi lægra tímakaupi en Danir. Samt lifum við dýrara lífi en þeir og raunar dýrar en nærri allar þjóðir heims. Við eigum fleiri og stærri bíla, fleiri litsjónvarpstæki og myndbandstæki en nokkur önnur þjóð og næststærstu íbúðir í heimi.

Þessi þverstæða er rakin í ágætri skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem samin er vegna mikillar umræðu um lífskjaramun í Danmörku og Íslandi. Samanburðurinn er mikilvægur, þar sem margir Íslendingar hafa einmitt flúið land og hafið störf í fiskvinnslu á Jótlandi.

Fullyrt hefur verið, að tímakaup sé helmingi hærra í Danmörku en hér á landi. Rannsókn Þjóðhagsstofnunar staðfestir þetta, en sýnir líka, að þessi staðreynd segir ekki alla söguna. Með lægri sköttum og meiri aukavinnu náum við að minnka aðstöðumuninn í tímakaupi.

Danir vinna að meðaltali 39 tíma í viku, en við 50 tíma. Síðan borga Danir tvöfalt hærri skatta en við gerum, þannig að ráðstöfunartekjur Dana eru 15% hærri en Íslendinga, þegar allt er saman dregið. Það er því ekki sama, hvað miðað er við í samanburði landanna.

Þeir, sem telja langan vinnudag á Íslandi vera skaðlegan, vilja miða við strípuð dagvinnulaun, en hinir, sem telja langan vinnudag eðlilegan, vilja miða við heildarlaun með yfirvinnu. Þannig fer það eftir gildismati, hvaða augum menn líta á silfrið í samanburðinum.

Þeir, sem telja öryggisnet þjóðfélagsins skipta miklu, vilja miðað við heildartekjur, en hinir, sem minna álit hafa á því, vilja miða við strípaðar tekjur að frátöldum sköttum. Þannig fer það enn eftir gildismati áhorfandans, hvernig hann metur tölur Þjóðhagsstofnunar.

Athyglisvert er þó, að hlutar velferðarkerfisins eru ekki lakari á Íslandi en í Danmörku, þrátt fyrir lægri skatta. Til dæmis er heilsufar heldur betra á Íslandi en í Danmörku, ungbarnadauði minni og ævilíkur meiri. Það bendir til, að sumpart nýtist fé betur hér.

Þegar margar staðreyndir eru dregnar saman í einn pott eins og gert er í skýrslu Þjóðhagsstofnunar og í ljós kemur, að veruleikinn er ekki svartur og hvítur, heldur mismunandi grár eftir sjónarhóli hvers og eins, er auðveldara að átta sig á ýmsum breytingum á þjóðfélaginu.

Þegar landflótti eykst og menn sækja í danska fiskvinnslu, stafar það ekki að öllu leyti af því, að lífskjaramunur landanna hafi aukizt. Það stafar í miklu meira mæli af breyttu gildismati, þar sem fleiri en áður hafa hóflega lengd vinnudags ofar á óskalista sínum.

Landflóttinn stafar líka af því, að þættir velferðarkerfisins eru öflugri í Danmörku en hér á landi. Fleiri en áður taka tillit til slíkra öryggisatriða, þegar þeir eru að stofna heimili og koma sér fyrir í lífinu. Atvinnuleysisbætur eru til dæmis mun öflugri í Danmörku en hér.

Þegar gildismatið breytist með nýjum kynslóðum á þann hátt, að menn eru síður en áður tilbúnir til að þreyja langan vinnudag og telja sig þurfa að taka meira tillit en áður til hættu á atvinnumissi, rýrnar staða Íslands í samanburði við lönd á borð við Danmörku.

Til skamms tíma fól gildismatið í sér, að fólk gat talið sig vera jafnsett Dönum og talið sér til hags að eiga fleiri bíla og litsjónvarpstæki. En almenna gildismatið er að breytast hinum séríslenzku aðstæðum í óhag. Stjórnendur þjóðfélagsins þurfa því að endurmeta stöðuna.

Sífellt þarf að breyta áherzlum landsfeðra í rekstri þjóðfélagsins, svo að Ísland sé samkeppnishæft við önnur lönd í lífsgæðum eins og þau eru metin á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV