Breytt umhverfi Íslands

Greinar

Tilboð Atlantshafsbandalagsins um óbeina aðild Rússlands er gott dæmi um, að pólitískt umhverfi Íslands er að breytast á nýrri öld. Við erum ekki lengur á hernaðarlega mikilvægu svæði. Skurðfletir átaka hafa færzt sunnar, fyrst suður á Balkanskaga og síðan enn suðaustar.

Afnám helztu gjaldmiðla Evrópu um áramótin eru annað dæmi um breytt umhverfi okkar. Stórþjóðirnar á meginlandi Evrópu eru að taka saman höndum um aukið afsal fullveldis í hendur fjölþjóðlegra stofnana, sem þær hafa komið á fót til að standa sig í framtíðinni.

Vaxandi ágreiningur Bandaríkjanna og Evrópu um fjölþjóðlega sáttmála af ýmsu tagi virðist líklegur til að verða eitt af meginviðfangsefnum heimsmálanna í upphafi nýrrar aldar. Evrópa hefur tekið forustu í þessum sáttmálum, en Bandaríkin neita að taka þátt í þeim.

Íslenzk stjórnvöld hljóta að taka eftir þessum breytingum og hafa vilja til að bregðast við. Því miður er nær engin marktæk umræða hér á landi um neinar breytinganna á pólitísku umhverfi okkar, þótt einstaka dálka- og leiðarahöfundar reyni stundum að opna umræðu.

Forsætisráðherra hefur þó lagt niður kenninguna um, að viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild eigi bara alls ekki að vera til umræðu hér á landi. Og tveir minni stjórnmálaflokkarnir af hinum fjórum stóru eru alténd farnir að senda sambandinu þýða tóna.

Af dæmunum hér í upphafi er ljóst, að heimurinn er að raðast í fylkingar á annan og flóknari hátt en áður var, þegar öllu var skipt í gott og illt. Gömul bandalög eru breytingum háð og ný verða til. Mestu máli skiptir þó, að víkur verða milli þeirra, sem áður voru vinir.

Bandaríkin og Evrópa eru að fjarlægjast. Bandaríkin eru orðið eina marktæka herveldið í heiminum, meðan Evrópa er orðin að hernaðarlegum dvergi, sem hefur sérhæft sig svo í efnahagsmálum og viðskiptum, að hagkerfi hennar er orðið nokkru stærra en Bandaríkjanna.

Innra þjarkið í stofnunum Evrópu hefur gert það verkum, að Evrópa og ríki hennar kunna vel við sig í fjölþjóðasamstarfi, þar sem unnið er á svipaðan hátt. Bandaríkin hafa hins vegar ítrekað neitað að taka þátt í slíku samstarfi og sáttamálum, jafnvel einir gegn öllum.

Risið hefur röð nýrra mála, þar sem Bandaríkin standa ein eða fámenn gegn heimsbyggðinni. Þar ber hæst stríðsglæpadómstól, takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eftirlit með eiturefnavopnum, bann við jarðsprengjum og takmarkanir við peningaþvætti.

Í öllum þessum málum hefur Evrópa haft forustu um að ná alþjóðlegu samkomulagi, sem Bandaríkin hafa barizt gegn. Svo virðist sem báðir aðilar hafi valið að skilja að skiptum, Evrópa sérhæfir sig í að vinna með öðrum, en Bandaríkin sérhæfa sig í að hunza allt og alla.

Íslendingar þurfa að meta stöðu sína í þessum heimi. Bandaríkin í dag eru ekki hin sömu og þau voru, þegar þau töldu sig þurfa herstöð á Íslandi vegna ógnunar frá Kólaskaga í þáverandi Sovétríkjum. Nú eru Bandaríkin ein á vettvangi og spyrja ekki neinn að neinu.

Sumir vilja halla sér að Bandaríkjunum og einhliða ákvörðunum þeirra. Aðrir vilja halla sér að Evrópu og þeim niðurstöðum, sem þar fást með langvinnu þjarki. Flestir eru þó þeir, sem vilja loka augunum fyrir breytingum á pólitísku umhverfi Íslands og vona hið bezta.

Í öllum tilvikum, einnig hinu síðasta, takmarkast fullveldi landsins. Val okkar snýst eingöngu um, hvernig við viljum skerða fullveldi okkar, en alls ekki hvort.

Jónas Kristjánsson

DV