Af hinu mannskæða snjóflóði á Flateyri getum við lært ýmislegt, sem auðveldar okkur að varast slíka atburði í framtíðinni. Mikilvægast er að átta sig á, að kaupstaðabyggð undir fjallshlíðum er óráðleg, svo sem sagt var hér í leiðara blaðsins 19. janúar síðastliðinn.
Snjóflóð hafði áður fallið niður að kirkjunni á Flateyri, svo að reynsla er fyrir því, að snjóflóð renna eins langt þar og þau gerðu núna, þótt þau geri það að vísu sjaldan. En miða verður við sjaldgæfa atburði, þegar reynt er að tryggja öryggi fólks á hættusvæðum.
Gagnsleysi snjóflóðavarna er það, sem sker mest og sárast í augu að þessu sinni. Á Flateyri hafði verið komið upp tveimur varnargörðum gegn snjóflóðum. Svo virðist, sem flóðið hafi lítið sem ekkert mark tekið á þeim. Það fór beint yfir annan og yfir jaðar hins.
Snjóflóðið kennir okkur, að ekki dugir að bæta fyrir fjárfestingarmistök síðustu áratuga í sjávarplássum landsins með því að reisa mannvirki til varnar byggðinni. Náttúruöflin eru einfaldlega kraftmeiri en þau mannvirki, sem maðurinn reisir sér til varnar.
Við þurfum að átta okkur fljótt á þessari nýju lexíu, þótt við höfum verið lengi að átta okkur á hinni gömlu, að ekki er ráðlegt að víkka byggð af sjávareyrum upp í brekkur, sem eru undir fjallshlíðum. Við verðum að viðurkenna ósigurinn og byrja aðgerðir með hreint borð.
Raunar átti reynsla forfeðranna að segja skipuleggjendum kaupstaða, að ekki skuli reisa hverfi utan sjávareyra og fjarðarbotna. Undanfarna áratugi hefur verið sýnt mikið andvaraleysi í þessum efnum, sem mun kosta þjóðfélagið milljarða króna á næstu árum og áratugum.
Þjóðin hefur á hverri öld mátt þola tímabil veðurofsa og hamfara, þótt á milli hafi liðið tiltölulega friðsælir áratugir. Margt bendir til, að nú sé gengið í garð nýtt tímabil stórviðra. Við þær aðstæður þurfum við að muna eftir fyrri tímabilum af því tagi í sögu landsins.
Stöðva ber allar framkvæmdir undir fjallshlíðum og hætta þar með í eitt skipti fyrir öll að tjalda til einnar nætur í sjávarplássunum. Í þess stað þarf að þétta byggð á eyrum og færa hana sumpart inn í fjarðarbotna, þar sem hvorki er hætta á snjóflóðum né flóðbylgjum.
Við þurfum að muna eftir, að snjóflóð og aurskriður að ofan eru ekki eina hættan, sem steðjar að fjarðabyggð. Flóðbylgjan á Suðureyri minnir okkur á, að einnig ber að kanna, hversu vel eða illa fjarðabyggðin er búin undir náttúruhamfarir að neðan, frá hafinu.
Á endanum er þetta svo peningadæmi. Þótt ofanflóðasjóður hafi verið efldur, er greinilegt, að hann ræður ekki við dæmið eftir að snjóflóðið á Flateyri hefur breytt forsendum þess. Við stöndum hreinlega andspænis útgjöldum, sem eru margfalt hærri á ári hverju.
Jafnframt þarf í alvöru að svara þeirri spurningu, hvort yfirleitt sé vit í að leggja mikið fjármagn til endurbygginga við aðstæður, þar sem landþrengsli eru mikil. Það hlýtur að verða áleitið að auðvelda fólki frekar að færa sig til staða, sem veita meira öryggi.
Ísland er stórt land og þjóðin á öflug skip, sem eru fljót á miðin. Það er ekki lengur nauðsynlegt að gera út frá hverjum firði. Nú er kominn tími til að fara að greiða götu þeirra, sem vilja losna úr átthagafjötrum verðlausrar fjárfestingar í landþröngum sjávarplássum.
Þjóðfélagið þarf að spara á öðrum sviðum til að geta losað fólk út úr þessum fjárfestingum og stutt það til framkvæmda við að skjóta rótum á öruggum stöðum.
Jónas Kristjánsson
DV