Breytum röð orkuvera.

Greinar

Að lokinni byggingu orkuvers við Hrauneyjafoss og aukinni vatnsmiðlun á Þjórsársvæðinu eru þrír virkjunarkostir taldir koma helzt til greina, Sultartangi, Blanda og Fljótsdalur. Enginn þeirra skarar eindregið framúr.

Sultartangavirkjun var til skamms tíma talin hafa minnsta möguleika, þótt undirbúningur hennar sé einna lengst á veg kominn. Löstur hennar er, að hún er á sama eldvirka svæðinu og hin orkuver Þjórsársvæðisins.

Í stjórnarsáttmála er réttilega gert ráð fyrir næstu stórvirkjun utan eldvirkra svæða. Skynsamlegt er að dreifa áhættunni með slíkum hætti, ef það er ekki of dýrt. Þess vegna hefur Blanda einkum verið í sviðsljósinu.

Sá hængur er þó á Blöndu, að formaður þingflokks framsóknarmanna hefur krafizt aukinnar stíflugerðar, sem gerir orkuverið mun dýrari kost en Sultartangi og Fljótsdalur. Þessi krafa hefur sett Blöndu í patt.

Meðan menn reyna að fá formanninn niður á jörðina verður Blanda tæpast virkjuð. Við búum við orkuskort. Og tímahraki fylgir stundum sú freisting að láta undan ósveigjanlegum og hörðum kröfum á elleftu stund.

Eðlilegt er, að pattstaða Blöndu leiði sjónir manna að orkuveri í Fljótsdal, sem er utan eldvirkra svæða, alveg eins og Blanda, og er talið geta boðið upp á jafnódýra orku og Sultartangi mun gera og Blanda hefði gert.

Gallar Fljótsdalsvirkjunar eru tveir. Í fyrra lagi er undirbúningur hennar skemmra á veg kominn en hinna tveggja. Þar er því mest óvissan í útreikningum. Henni þarf að eyða með frekari rannsóknum, sem kosta tíma.

Í síðara lagi tekur meiri tíma að reisa orkuver í Fljótsdal en við Sultartanga. Þessir tveir annmarkar valda því, að orkuver í Fljótsdal getur ekki tekið til starfa fyrr en 1987, meðan Sultartangi gæti byrjað 1985.

Orkuráðherra telur, að ný orka Hrauneyjafoss og vatnsmiðlun á Þjórsársvæði muni duga þjóðinni ekki aðeins til 1987, heldur allar götur til 1989. Gerir hann þá ráð fyrir, að orkufrekur iðnaður verði ekki byggður upp á tímabilinu.

Auðvitað eru deildar meiningar um orkufrekan iðnað. Hitt er jafn augljóst, að heppilegra er að geta átt kost á orkufrekum iðnaði en eiga þess ekki kost. Örari virkjanir færa þjóðinni frjálst val um orkufrekan iðnað.

Ef Hjörleifur Guttormsson getur knúið fram virkjun í Fljótsdal í þessum áfanga, hefur hann tekið fyrir þjóðina ákvörðun í stóriðjumálum, sem henni kann að vera á móti skapi. Og til slíks á hann ekki að hafa vald.

Umtalsverður hluti þjóðarinnar hefur sætt orkuskorti á þessum vetri. Og meirihluti hennar telur óhætt að auka fjölbreytni efnahagslífsins með nýjum tegundum orkufreks iðnaðar. Þess vegna þurfum við að virkja ört.

Bezti kostur okkar er að hefja virkjun við Sultartanga og ljúka undirbúningi virkjunar í Fljótsdal. Þá fáum við rafmagn frá Sultartanga 1985, frá Fljótsdal 1988 og frá Blöndu skömmu síðar, ef um hana semst.

Við erum þar með ekki að velja milli virkjana, heldur breyta röð þeirra lítillega vegna óþægilegrar uppákomu í Blöndumálinu. Víð fáum orkuver utan eldvirkra svæða og útrýmum um leið orkuskorti í þessu vatnsorkulandi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið