Brezk og frönsk ábyrgð

Greinar

Hrunin er brúin hjá Mostar yfir ána Neretva í Bosníu. Þetta var hin síðasta af nokkrum fjögurra alda gömlum brúm, sem soldáninn í Miklagarði lét reisa á þessum slóðum. Þessi brú þótti svo mikið verkfræðiafrek, að ferðamenn komu úr öðrum löndum til að skoða hana.

Að þessu sinni voru Króatar að verki, en ekki Serbar, sem hingað til hafa átt 80-90% af öllum hryðjuverkum í Bosníu, allt frá morðum og nauðgunum yfir í árásir á sjálfa menningarsöguna. Hinn illi andi Serba smitar smám saman út frá sér til annarra þjóða á svæðinu.

Tvö utanríkisráðuneyti standa umfram aðra aðila að baki Serbum í þjóðahreinsun þeirra í Bosníu, það brezka og franska. Þau hafa frá upphafi skotið niður hugmyndir um, að vesturveldin framkvæmi hótanir sínar um hernaðarleg afskipti af útþenslustríði Serba.

Þegar brezka og franska utanríkisráðuneytið hófu iðju sína, var auðvelt að stöðva Serba. Nú er það erfitt, enda vita þeir, að hótanir vesturveldanna eru einskis virði, og að svokallaðir sáttasemjarar vesturveldanna hafa reynt að staðfesta landvinninga Serba í Bosníu.

Stjórnir Bandaríkjanna og Þýzkalands hafa ítrekað reynt að fá framgengt afnámi vopnasölubanns á stjórnina í Bosníu. Hvað eftir annað hafa stjórnir Bretlands og Frakklands komið í veg fyrir, að Bosníumenn fengju sómasamlegt tækifæri til að verja hendur sínar.

Brezku og frönsku rökin gegn afnámi vopnasölubanns á Bosníu eru í senn fáránleg og ógeðsleg, utan mannlegs skilnings. Ef þeim hefði verið beitt við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, væri Hitler núna herra yfir heiminum. Þessi rök segja, að fleiri vopn auki mannfallið.

Churchill og de Gaulle hefðu sagt, að snúa þyrfti mannfallinu frá Bosníumönnum yfir á Serba til að leiða þeim fyrir sjónir, að landvinningastríð þeirra mundi ekki ná árangri. Formúla brezka og franska utanríkisráðuneytisins felur í sér, að jafnan skuli gefizt upp í átökum.

Brezka og franska utanríkisráðuneytið hafa reynt að gelda stríðsglæpadómstól Júgóslavíu, sem kemur saman í Haag í þessari viku á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa neitað að taka þátt í kostnaði við dómstólinn og einnig neitað að veita honum brýnustu upplýsingar.

Aðeins einn rannsóknamaður er að störfum á vegum stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna. Hann á að rannsaka skipulegar nauðganir Serba á þúsundum Bosníukvenna, fjöldamorð þeirra á tugþúsundum Bosníumanna og annað, sem til fellur af stríðsglæpum á svæðinu.

Vitað er, að skipulegir og markvissir stríðsglæpir Serba eru framdir með vitund og vilja Slobodans Milosevics Serbíuforseta; Radovans Karadziks, hins geðsjúka forseta Bosníuserba; Ratkos Mladics, herstjóra Serba í Bosnía; og annarra ráðamanna Serba á svæðinu.

Þetta eru einmitt mennirnir, sem umboðsmenn Vesturlanda eru að reyna að friða. Svokallaður sáttasemjari, Owen lávarður, hefur beinlínis sagt, að menn geti gleymt stríðsglæparéttarhöldum, því að þau verði engin haldin. Og Owen reynir jafnframt að verðlauna þremenningana.

Hinn siðlausi og skammsýni andi Owens svífur yfir vötnum brezka og franska utanríkisráðuneytisins. Þar ganga menn úr vegi til að koma í veg fyrir fjáröflun og gagnaöflun stríðsglæpadómstólsins í Haag. En þeir geta ekki hindrað, að við komumst að raun um ábyrgð þeirra.

Skammsýni Breta og Frakka felst meðal annars í, að velgengni stórglæpamanna á einum stað hvetur til svipaðra vandræða á öðrum stöðum, svo sem dæmin sanna.

Jónas Kristjánsson

DV