HVORKI STALÍN né Hitler eiga metið í fjöldamorðum, ekki heldur Maó formaður. Stalín og Hitler komust hvor um sig upp í 17 milljón manns. En þeir eiga samt ekki heimsmetið og enn síður Djengis Kan eða Tímúr halti eða Mustafa Kemal Atatürk.
MESTI FJÖLDAMORÐINGI heimsins er Benjamin Disraeli, sem var forsætisráðherra Bretlands árin 1874-1880, þegar brezki herinn drap 27 milljón manns í Indlandi með því að þröngva hungursneyð upp á landið, samkvæmt fyrirmælum frá Disraeli.
MIKE DAVIS hefur skrifað bók um þessa hungursneyð. Lytton lávarður kom henni af stað með því að gera allt korn í Indlandi upptækt og koma því til Bretlands. Þegar bændur fóru að deyja úr sulti, var hernum beitt gegn hjálparstarfi.
ÞEGAR MILLJÓNIR voru dauðar úr hungri, var restin af fólkinu rukkuð um ógreidda skatta hinna hungurdauðu. Lífsbjörgin var tekin af því, svo að það gæti líka dáið úr hungri. Þarna voru ekki Stalín og Hitler að verki, heldur brezkur lord.
ÞAÐ ER SVO fróðlegur eftirmáli, að hungursneyðir voru árvissar í Indlandi á valdatíma Breta. Þær lögðust síðan niður, þegar landið varð sjálfstætt, því að Indland er í sjálfu sér ríkt land með frjósömum landbúnaðarhéruðum.
ÉG VAR Í DELHI og hlustaði á nóbelshagfræðinginn Amartya Sen ræða um hungursneyðir í heiminum. Niðurstaða hans af dæmum frá fjölda landa var, að þar sem er frjáls pressa, þar verður ekki hungursneyð. Enda eru slíkar enn á ferð í Kína.
Í BÓK DAVIS er fjallað um tuttugu mismunandi fjöldamorð brezkra stjórnvalda, svo sem í Kenía, Tasmaníu, Malaja, Oman og Norður-Jemen. Um þau var auðvitað ekki fjallað í brezku heimspressunni. En Bretar eru heimsmeistarar fjöldamorða.
DV