Erfiðleikar embætta skipulagsstjóra og gatnamálastjóra Reykjavíkur við að sjá fyrir þróun samgöngumála í borginni endurspeglast í tregðu þeirra við að undirbúa viðstöðulausan akstur á mesta umferðar- og slysahorni borgarinnar, gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Til skamms tíma töldu embættin ranglega, að ekki þyrfti mislæg gatnamót á þessum stað. Nú vita þau betur, en eru samt að gæla við hugmynd um, að hafa aðeins viðstöðulausan akstur á annarri götunni og þá jafnvel frekar á Kringlumýrarbraut, þótt umferð á Miklubraut sé miklu þyngri.
Við undirbúning mislægra gatnamóta á þessum stað þarf að hafa í huga nýja byggð, sem verið er að skipuleggja í Vatnsmýri vegna minnkunar flugvallarins, ráðagerðir um byggð úti í sjó við Eiðisgranda og hugmyndir um að láta flugvöllinn í Vatnsmýri víkja fyrir nýjum miðbæ.
Miklabraut er eðlileg samgönguæð þessara viðbóta. Með mislægum og viðstöðulausum gatnamótum á horni Kringlumýrarbrautar og með því að beina umferð um Stakkahlíð og Lönguhlíð frá Miklubraut næst viðstöðulaus kafli alla leið til Vatnsmýrar um undirgöngin við Miklatorg.
Skrifstofur skipulagsstjóra og gatnamálastjóra geta gamnað sér við hugmyndir um að ýta umferðinni niður í miðbæ af Miklubraut yfir á Kringlumýrarbraut og Sæbraut, en á þeirri leið eru ótal gatnamót, sem þyrftu að vera mislæg til að vera samkeppnishæf við Miklubraut.
Á þessum króki niður í bæ eru gatnamót við Háaleitisbraut, Suðurlandsbraut, Borgartún, Sæbraut, Samtún, Snorrabraut og á þremur stöðum við Skúlagötu. Það verður dýrari kostur að reyna að veita umferðinni í þennan farveg fremur en að ráðast í augljósar breytingar á Miklubraut.
Miklu nær er að leyfa Sæbrautinni að þróast í takt við fyrirhugaða tengingu yfir sundin við Vesturlandsveg, þegar að henni kemur, en láta Miklubraut þjóna samgöngum í Reykjavík endilangri og viðstöðulausum tengingum við bæjarfélögin í suðri og við Suðurlandsveg.
Því miður hefur borgin víða skipulagt hús alveg ofan í lykilgatnamót aðalskipulagsins, svo sem dæmið sýnir við Höfðabakkabrúna. Þessi óforsjálni hefur leitt til flókinna og dýrra lausna og umferðarljósa á brúm í stað viðstöðulaus aksturs eins og hefur þó tekizt við Elliðaárnar.
Aðkoman að Miklubraut úr undirgöngunum frá Kringlu er gott dæmi um, að ekki er nauðsynlegt að hafa víðáttumiklar slaufur við mislæg gatnamót, svo framarlega sem umferðarhraða er haldið niðri, til dæmis með hraðahindrunum. Viðstöðulaus akstur getur náðst í þrengslum.
Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru og verða þyngsta umferðarhorn höfuðborgarsvæðisins. Óhugsandi er annað en að hafa þar mislæg gatnamót með viðstöðulausum akstri í allar áttir, jafnvel þótt hafa verði sumar slaufurnar krappari en æskilegt hefði verið.
Skynsamlegt er að stefna að viðstöðulausum akstri um Miklubraut eftir borginni endilangri frá Vatnsmýri að Suðurlandsvegi, um Kringlumýrarbraut í Hafnarfjörð og um Reykjanesbraut til Keflavíkur. Öflugt atvinnulíf á svæðinu kallar á hraðar og hindrunarlausar samgöngur.
Embættismenn og skipulagsnefnd borgarinnar þurfa að byrja að átta sig á, að mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verða mikilvægasta samgöngumannvirki höfuðborgarsvæðisins.
Jónas Kristjánsson
FB