Brunað suður göngin

Greinar

Jarðgöng hafa ekki hjálpað Flateyri, Siglufirði og Ólafsfirði. Atvinnulíf hefur oftast gengið treglega og fólki hefur fækkað hraðar en áður. Síðan göngin komu hafa menn getað flúið árið um kring. Og nú vilja Siglfirðingar önnur göng til viðbótar þeim, sem fyrir eru.

Við þekkjum að reynslunni, að opinber starfsemi hverfur smám saman af hagkvæmnisástæðum út fyrir göng. Embætti ríkisins flytjast til Ólafsfjarðar og Akureyrar, síðan skólarnir og loks bæjarstjórnin sjálf. Lítum bara á reynslu Flateyringa af göngunum fyrir vestan.

Gerð jarðgangna á það sammerkt með annarri byggðastefna hins opinbera, að hún stöðvar ekki þróunina og hægir ekki einu sinni á henni. Fólk hefur jafnt og þétt verið að flytjast suður alla tuttugustu öldina og mun halda áfram að flytjast suður á tuttugustu og fyrstu öld.

Áhrifasvæði jarðgangnanna á Vestfjörðum væri nánast komið í eyði, ef ekki hefði komið himnasending flóttamanna frá útlöndum, sem halda uppi vestfirzku atvinnulífi um þessar mundir. Innflutningur nýbúa er raunar eina byggðastefnan, sem hefur verkað hér á landi.

Reynsla okkar af göngum, öðrum en í Hvalfirði, bendir ekki til neinnar arðsemi af þeim. Hún sýnir ekki, að göng séu eign, sem unnt sé að meta til fjár eins og ýmsar aðrar eignir ríkisins, svo sem banka, landssíma og landsvirkjanir. Göng afskrifast þvert á móti umsvifalaust.

Þess vegna væri rangt að fara að tillögu samgönguráðherra um að nota tekjur af sölu ríkiseigna til að fjármagna jarðgöng. Slíkar tekjur á að nota til að greiða niður skuldir ríkisins. Ef reyta á verðmætar eignir af ríkinu er lágmarkskrafa, að skuldir þess minni að sama skapi.

Íslenzkir pólitíkusar eru vísir til að éta út eignir ríkisins og skilja það eftir slyppt, ef þeir komast gagnrýnislaust upp með að velja auðveldustu leiðina hverju sinni. Þess vegna er nauðsynlegt, að haldið verði uppi fræðilegri gagnrýni á veruleikafirrt hugmyndaflug þeirra.

Vegna eignastöðu ríkisins er óráðlegt að taka lán til að grafa göng og auka þannig skuldirnar án þess að arðbærar eignir komi á móti. Hins vegar mætti ríkið taka lán til að auka flutningsgetu helztu samgönguæða höfuðborgarsvæðisins, því að þjóðhagslegur arður er af slíku.

Þar sem arðsemismunur er á jarðgöngum í strjálbýli og samgöngubótum í þéttbýli, er skynsamlegt að fjármagna jarðgöng af aflafé ríkisins, þótt taka megi lán til að fjármagna aðgerðir, þar sem umferð er mikil. Svigrúmið er meira í framkvæmdum, sem gefa af sér arð.

Þar með höfum við íslenzka byggðastefnu í hnotskurn. Valið stendur milli arðlausra verkefna í þágu byggðastefnu og arðbærra verkefna í þágu almennrar hagþróunar landsins. Að venju verður fundin pólitísk millileið, sem blandar saman arðlausum verkum og arðbærum.

Hitt má svo ljóst vera, að jarðgöng eiga það sammerkt með annarri fjárfestingu í byggðastefnu, að þau hindra fólk ekki í að flytjast þangað, sem það vill flytjast. Allir milljarðarnir, sem sáð er á hverju ári í byggðastefnu, falla í grýtta jörð. Fólk sogast áfram í átt til tækifæra.

Unga fólkið sér ekki framtíðartækifæri sín við færibönd fiskvinnslunnar. Það sér þau heldur ekki við bræðslupotta álveranna. Eins og í öðrum vestrænum löndum verða það einkum flóttamenn frá enn verra ástandi, sem munu sætta sig við færibönd og bræðslupotta.

Hvar sem göng verða grafin, mun unga fólkið bruna gegnum þau alla leið suður, þar sem það væntir tækifæra í tengslum við hátækni tuttugustu og fyrstu aldar.

Jónas Kristjánsson

DV