Frá Jökulheimum við Vatnajökul að Miklafelli á Síðumannaafrétti.
Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa og hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Sunnan hans byrjar þessi leið, Brunavötn, sem endar við Miklafell á Síðumannaafrétti.
Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt, enda liggur sú leið betur við Gnúpum.Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.
Hin forna Bárðargata liggur vafalaust meðfram Síðujökli einhvers staðar yfir Hverfisfljót og áfram niður í Fljótshverfi að Gnúpum / Núpum. Á landnámsöld er líklegt, að vatnaskil hafi þvingað meira af jökulvatni í Skaftá og minna hafi runnið í Hverfisfljót, sem þá hét Raftalækur. Við förum hins vegar ekki yfir Hverfisfljót, heldur fylgjum jeppaslóð frá fljótinu til suðurs um Brunavötn og Fremri-Eyrar að slóð, sem liggur frá fjallaskálanum í Miklafelli að Blæng. Við förum þá slóð suðaustur að vesturbrún Miklafells og síðan suður fyrir fellið að skálanum, sem er suðaustan undir fellinu í 410 metra hæð.
26,0 km
Skaftafellssýslur
Jeppafært
Nálægar leiðir: Bárðargata
Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Landnámabók