Brynja gegn breytingum

Greinar

Af dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins mætti að óreyndu ætla, að hann væri eins konar kvenréttindafélag. Þetta minnir á síðustu kosningabaráttu, þegar sami flokkur kynnti sig sem eins konar jafnréttisfélag fyrir konur, og er jafn fjarri raunveruleikanum og þá.

Ekki verður séð, að flokkurinn sinni þessum málaflokkum, þegar hann hefur til þess völd, til dæmis í langri ríkisstjórnarsetu. Enda er eitt helzta einkenni hans að vilja halda fast í ríkjandi ástand, hvert sem það er á hverjum tíma. Hann er ekta íhaldsflokkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er að koma út úr skápnum sem einn helzti andstöðuflokkur aðildar að Evrópusambandinu og veiðileyfasölu í sjávarútvegi. Hann hefur löngum verið burðarás óbreyttrar stefnu í landbúnaði. Hann er hræddur við breytingar, þar á meðal á stöðu kvenna.

Fastast stendur flokkurinn fyrir, þegar ógnað er hagsmunum gamalgróins auðs, sem fenginn var með forréttindastöðu í séríslenzku skömmtunar- og fáokunarkerfi efnahagslífsins. Hann óttast samkeppni, styður fáokunarfyrirtæki og vill halda auði í óbreyttum höndum.

Þetta er stefna, sem ekki verður lesin í ályktunum landsfunda. Hún er hins vegar rituð skýrum stöfum í aðgerðum og afstöðu fulltrúa flokksins, þegar á reynir í ríkisstjórn, á Alþingi og í sveitarstjórnum. Flokkurinn er ekki breytingaflokkur, heldur íhaldsflokkur.

Að ráði markaðsfræðinga er hugmyndum um breytingar oft veifað á landsfundum. Áherzlan að þessu sinni er á jafnrétti kvenna, en hún mun ekki fá útrás í gerðum fulltrúa flokksins, þar sem þeir sitja á valdastólum þjóðfélagsins. Milli orða og athafna er ekkert samband.

Áratugum saman hafa landsfundir Sjálfstæðisflokksins annað veifið samþykkt ályktanir um bætta stöðu neytenda í búvörumálum. Þannig er að þessu sinni kvartað í ályktunardrögum um, að ríkisstjórn flokksins hafi rýrt lífskjör fólks með ofurtollunum illræmdu.

Þótt landsfundurinn samþykki ályktunina í einhverri mynd, gerir enginn ráð fyrir, að það hafi nokkur áhrif á gerðir fulltrúa flokksins í ríkisstjórn og á Alþingi. Ekki frekar en umræða fundarins um jafnréttismál. Ályktanir og raunveruleiki eru aðskildir heimar flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn minnir stundum meira á kirkju en flokk. Þar eru gömlu spakmælin enn í fullu gildi, svo sem “stétt með stétt”. Þar hlýða menn yfirboðurum sínum. Þar er hlutverk kvenna að hella upp á kaffi og hinna greindustu meðal þeirra að rita fundargerðir.

Sjálfstæðisfólk kýs sér ekki forustu til að framkvæma einhverjar ályktanir, sem markaðsfræðingar telja heppilegt að framleiða. Það kýs sér forustu til að leiða sig og segja sér fyrir verkum. Það vill í raun, að stefnan komi að ofan, frá hinum kirkjulegu yfirvöldum flokksins.

Flokkurinn er stór, af því að margir kunna vel við þetta íhaldssama kerfi. Fæstir kjósendur eru gefnir fyrir sífelldar breytingar og tilraunir. Þeir leita skjóls í stórum faðmi Sjálfstæðisflokksins, sem stendur vörð um, að breytingar séu hægar og valdi sem minnstri röskun.

Þráin í festu í þjóðfélaginu fer saman við gæzlu gróinna hagsmuna, hvort sem þeir eru í fáokunarfyrirtækjunum stóru, í landbúnaðinum almennt eða á einhverjum afmörkuðum sviðum, svo sem í stofnun óþarfs embættis til að leysa persónuleg vandamál í þjóðkirkjunni.

Þegar landsfundi er lokið, mun Sjálfstæðisflokkurinn áfram vera brynja hins föðurlega skömmtunar- og fyrirgreiðslukerfis, sem einkennir íslenzk stjórnmál.

Jónas Kristjánsson

DV