Björn Jónsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Snæfellsbæ:
Vegagerðin á Vesturlandi hefur tekið í notkun malarbrotsvél, sem tekur gróft efni, sem lagt hefur verið í reiðvegi, og brýtur yfirborð þess niður í sand. Tækið hefur verið notað í ágúst á nokkrum stöðum á Vesturlandi, þar á meðal í reiðveg frá þjóðvegi heim að Lýsuhóli á Snæfellsnesi og á reiðvegi meðfram þjóðvegi í Helgafellssveit.
Nota þarf traktor til að draga vélina og er tímakaupið samtals 15.800 krónur á settið. Áætlað kostnaðarverð á hvern malaðan kílómetra í reiðvegi er 38.000 krónur.
Tæki þetta er líka hægt að nota til að taka gróft land og brjóta yfirborð þess beint niður í fínlegra efni, þar sem aðstæður eru góðar til slíkra vinnubragða. Að öðrum kosti þarf fyrst að leggja út reiðveg með grófu efni, áður en þessi vél býr til heppilegt yfirborð.
Reiknað er með, að tækið verði einkum notað á venjulega malarvegi til að gera þá mýkri en þeir hafa verið. Gerðar hafa verið tilraunir með þetta, til dæmis á veginum út fyrir Jökul og gert er ráð fyrir að halda áfram á veginum yfir Uxahrygg.
Vélin kostaði 2,3 milljónir króna í innkaupi og mun væntanlega hafa næg verkefni. Hér er um áhugaverðan grip að ræða, sem mætti nota til að bæta bágt ástand, sem víða er á reiðleiðum.
Umsjónarmaður tækisins er Bjarni H. Johansen, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Borgarnesi.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 8.tbl. 2004