Bubbi kóngur í ellilaunastöðu

Greinar

Fyrst man ég eftir Davíð Oddssyni sem borgarstjóra í boði hjá Steingrími Hermannssyni í ráðherrabústaðnum, sennilega fyrir 22 árum. Tilefni hanastélsins er löngu gleymt, en myndin lifir enn. Menn voru tveir og þrír saman á stangli í stofunni, fimm umhverfis Steingrím og tólf kringum Davíð.

Davíð stóð sperrtur og sagði skemmtilegar sögur, hverja á fætur annarri. Menn mændu á sögumann og hlógu óskaplega. Davíð átti partíið eins og hann átti eftir að eiga landið allt. Þarna kom hann fram sem fullgerður og fullreyndur stjórnmálamaður, sem skyggði meira að segja á gestgjafann.

Þar sem allir eru góðir, þegar þeir eru gengnir, verður hér ekki rifjað upp allt það, sem DV hefur haft út á Davíð að setja sem forsætisráðherra síðan 1991. Enda er það svo margt á fjórtán árum, að marga leiðara þarf til að rekja það. Hér verður frekar minnst á það, sem jákvætt er um hann að segja.

Davíð hefur alltaf borið höfuð og herðar yfir stjórnmálamenn samtímans. Hann hefur átt fjölbreytt vopnabúr, allt frá góðlátlegri gamansemi yfir í grimmd eltingaleiks við erfiða einstaklinga. Hann hefur alltaf stjórnað sinni hljómkviðu og kunnað að segja “svona gera menn ekki”, þegar það átti við.

Engum hefur dugað að etja við Davíð, hvorki sem borgarstjóra né sem forsætisráðherra. Það eina, sem hann hefur ekki ráðið við, eru veikindin, sem byrjuðu að hrjá hann fyrir ári. Þau eru örugglega forsenda þess, að hann hefur nú ákveðið að segja skilið við pólitíkina og leita skjóls í Seðlabankanum.

Helzta einkenni Davíðs sem forsætisráðherra er hið sama og flestra annarra slíkra, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur teflt fram. Hann hefur verið sósíaldemókrat eins og hinir. Ekki er hægt að finna hársbreidd milli hans og sænskra krata, sem hafa einkavætt ríkið og magnað velferðarkerfið.

Þetta hefur Davíð gert við erfiðari skilyrði en forverar hans. Á vakt Davíðs hefur frjálshyggjan risið og hnigið og meðal annars sett mark sitt á vinahóp hans. En eigi að síður hefur Ísland fylgt sænskri stefnu á vaktinni, meðal annars magnað fæðingarorlof og liðkað til fyrir hommum og lesbíum.

Davíð varð frægur fyrir Bubba kóng í herranótt Menntaskólans í Reykjavík árið 1969, fyrir 36 árum. Það er stílbrot hans í endataflinu að sætta sig við ellilaunastöðu í Seðlabankanum.