Frá Ámótsvaði á Hvítá um Reykjadalsárbuga að Rauðsgili og síðan að Giljum í Reykholtsdal.
Við Ásgarð norðaustan Stóra-Kropps er komin ólögleg fyrirstaða á þessari þjóðleið. Hafa menn því krækt upp á þjóðveg 50 framhjá fyrirstöðunni.Að fornu var Ámótsvað helzta vaðið á Hvítá og kemur mjög við sögu í Sturlungu. Þetta er leiðin frá vaðinu upp að höfuðbólinu Reykholti og síðan áfram austur á heiðavegi norður og suður. Á leiðinni er sagt, að farið sé 20 sinnum yfir Reykjadalsá vestan Reykholts og heitir það, að fara Buga. Víðast er leir í botni árinnar, en sums staðar möl þar ofan á.
Í árbók FÍ 2004 segir: “Brot verða á ánni, þar sem hún slær sér frá “brattbakka” öðrum megin árinnar og yfir að “flatbakka” og svo í brattbakkann hinum megin árinnar. Þar dregur úr straumnum og mölin sest til. Liggja brotin nánast frá flatbakka til flatbakka og heldur undan straumi. Eru þar bestu vöðin á bugðuánum og má fara eftir flatbökkunum og yfir á brotunum.”
Byrjum við Ámótsvað við ármót Hvítár og Reykjadalsár í Reykholtsdal. Þar heita Höfðahólar. Förum austur og upp Reykjadalsá og á bökkum hennar um Klett, Mjóanes og Miðnes, Hveranes, Víðigerði og Vellines. Sums staðar þarf að ríða í ánni út fyrir girðingar. Síðan austur fyrir Reykholt á móts við Úlfsstaði. Þar förum við suður yfir ána að Rauðsgili í Reykholtsdal.
23,7 km
Borgarfjörður-Mýrar
Nálægar leiðir: Hálsaleið, Húsafell, Fróðastaðavað, Ámótsvað, Langholtsvað.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Árbók FÍ 2004