Búlandshöfði

Frá Ólafsvík til Grundarfjarðar á Snæfellsnesi.

Nú er þjóðvegurinn farinn fyrir Búlandshöfða. Þetta er ekki góð reiðleið, mest með eða á bílvegi, fyrst og fremst tengileið milli slóða undir Jökli og slóða um Skógaströnd og fjallvegi þaðan. Utan í Búlandshöfða lá áður mjó gata og hengiflug fyrir neðan. Þarna eru örnefni eins og Líkasteinn og Þrælaskriða. Hjá Þrælaskriðu var gatan varhugaverðust og segir í Eyrbyggju að þar hafi óttaslegnir þrælar steypt sér fyrir björg á flótta.

Um Höfðaskarð lá leið bak við Búlandshöfða. Um hana segir í sóknarlýsingu 1840: “… liggur svonefnt Höfðaskarð uppi á fjallinu, bak við Höfðann, en þar eð báðum megin að er bratt og erfitt upp á það og vegur talsvert lengri hefir þar enn nú ei verið þjóðvegur lagður, þó í viðlögum hafi einstöku sinnum þar með hesta yfir farið.”

Förum frá Ólafsvík austur með þjóðvegi 574, yfir gömlu brúna á Fossá. Þá eftir reiðgötu um Hjallhól, gamlan veg að Bug og með Bugsvaðli að Fróðá, og síðan að eyðibýlunum Klettakoti og Fornu-Fróðá. Svo með þjóðvegi 54 að Geirakoti og Brimilsvöllum, Hrísum og Hrísaá. Fjöruveg er hægt að fara, þegar fjara er, og yfir Helgabrot og inn Mávahlíðarrif að Mávahlíð. Þar tekur við þjóðvegur 54 um Búlandshöfða og meðfram Látravík og Hálsvaðli, sunnan við Kirkjufell að Grundarfirði.

24,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægar leiðir: Ólafsvíkurenni, Jökulháls, Kambsskarð, Fróðárheiði, Bláfeldarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson

Heimild: Örn H. Bjarnason