Bullurnar

Greinar

Einn úr klíkunni hefur samið óháð lögfræðiálit til stuðnings ráðherrum. Hann er orðinn prófessor og skiptir tíma sínum milli hnitmiðaðra og innrammaðra greina í Mogganum til varnar Hinum Mikla og ruddalegra mannlýsinga í fleiri bréfum en því eina, sem hengt var upp á töflu í Verzlunarskólanum.

Annar prófessor skiptir líka tíma sinum milli hnitmiðaðra og innrammaðra greina í Mogga til varnar Hinum Mikla og annarra skrifa, sem felast í að klippa og líma saman að nýju texta annarra manna og þykjast hafa skrifað hann sjálfur. Hann telur þetta eðlilegt og sjálfsagt, hafið yfir lög og rétt.

Þriðji var einu sinni ráðherraígildi sem fréttastjóri ríkissjónvarpsins og rekur núna útvarpsstöð, þar sem hann bendir þjóðinni á, hvílíkt úrþvætti forseti landsins sé. Hann hefur um það langt og samansúrrað mál að hætti útvarpsstöðva róttækra Neanderdalsmanna í Bandaríkjunum.

Enginn kemst þó með tærnar, þar sem sjálfur Hinn Mikli landsfaðir hefur hælana. Hann kastar ítrekað skít í forseta landsins og lætur framkvæmdastjóra flokksins fylgjast með stöðu ritstjóra Moggans í Landsbanka til að ná á honum hreðjatökum, svo að notað sé eigið orðaval landsföðurins.

Hinn Mikli skiptir tíma sínum milli hótana í símtölum og hótana inni á teppi. Hann lagði niður Þjóðhagsstofnun, af því að forstjórinn fór í taugarnar á honum. Hvar sem Hinn Mikli fer, sáir hann um sig ótta og skelfingu, hvort sem það eru embættismenn, samflokksþingmenn, prestar eða umbar.

Þjóðfélagið í heild snýst um Hinn Mikla, reiðiköst hans og ofbeldishneigt hatur í garð þeirra, sem hann telur leggja steina í götu sína. Sértæk lög eru sett á færibandi um margvísleg áhugamál hans, allt frá digrum eftirlaunum Hins Mikla yfir í afnám einkafyrirtækja, sem honum hugnast ekki.

Um þessa hegðun fann Velvakandi Moggans orð, sem hæfir. Það eru bullurnar, sem hér á landi og raunar víðar hafa spillt fyrri leikreglum vestræns samfélags eins og við þekkjum þær frá þeim tíma, þegar leikreglumenn á borð við Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrím Hermannsson voru í pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn um bullurnar, þótt hann sé umsvifamestur. Satt að segja var margumræddur forseti þjóðarinnar ein af þeim verstu, þegar hann var í pólitík. Annar formaður stjórnarandstöðunnar skrifar bréf að hætti framangreinds prófessors og hinn sleppir sér í ræðustóli.

Vandi okkar stjórnmála nú er hinn sami og í Bandaríkjunum. Vandinn fylgir þeim tíðaranda, að hinn sterki skuli hafa öll völd óspöruð. Bullurnar hafa tekið völdin í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV