Búmannsklukkan

Veitingar

Búmannsklukkan er með betri stöðum, sem stæla verðlagið á Hótel Holti án þess að ná gæðum þess. Maturinn er yfirleitt góður og umhverfið næsta fágætt.

Eftir ýmsa hrakninga er gamla Torfan aftur komin til upphafs síns sem veitingahúss. Húsgögn og innréttingar eru að mestu á nýjan leik í samræmi við húsið. Þetta er eitt notalegasta umhverfi matargerðarlistar á landinu. Viðlag innréttinganna eru klukkur, sem flestar virðast mér ganga alls ekki. Voldugust er borgundarhólmsklukka, sem flýtir sér um eina klukkustund eins og búmannsklukku sæmir. En má ekki fara með hinar klukkurnar til Ingvars Benjamínssonar?

Góð og vönduð húsgögn í gömlum stíl einkenna staðinn. Ljósir litir ráða ferðinni á neðri hæð, en kaffistofan í risi er ofhlaðinu þremur litþungum sófasettum, sem ekki henta fíngerðu og smávöxnu og björtu húsi. Dökkir steikhússplattar undir diskum eru líka utan hússtíls.

Að meðaltali kostar þríréttaður matur 3.000 krónur að kvöldi fyrir utan drykkjarföng og 2.000 krónur í hádegi. Síðara verðið er hærra en í Holti. Súpa og réttur dagsins í hádeginu kosta 990 krónur.

Saffransúpa með silungi

Skemmtilegastir voru skyreldaðir sjávarréttir, lax, rækjur og hörpufiskur, sem minntu á indverskt tandúrí. Þetta sýnir, að við ættum að geta notað skyr til matreiðslu á svipaðan hátt og jógúrt er notað í Austurlöndum.

Bezti rétturinn var tær og bragðsterk saffran-súpa með silungi, lúðu, hörpufiski, rækjum og sveppum, er var á boðstólum sem súpa dagsins í hádeginu. Spergilsúpa dagsins að kvöldi var fremur þykk, en sæmileg á bragðið.

Smjörsteiktir sveppir voru snarpheitir og mildilega eldaðir. Reyktur lax var mjúkur og frísklegur. Pastaréttir voru nokkuð góðir, einkum fiðrildapasta með rækjum, hörpufiski og sveppum, svonefnt sjávarréttapasta. Kryddjurtapasta dagsins var nokkuð síðra, þótt frambærilegt væri.

Kampavínssoðinn skötuselur var fremur mikið eldaður, borinn fram með ljósri sósu. Búri dagsins var hins vegar hæfilega eldaður, léttsteiktur, en vel heitur. Grænmeti með forréttum og aðalréttum var fremur staðlað og byggði mest á jöklasalati.

Ostakaka staðarins var góð, sömuleiðis fíkjur með tindrandi fallegum hindberjum og rifsberjum. Kaffi var gott.

Vínlisti er stuttur, með áherzlu á fremur ódýrar og vandaðar tegundir, Riesling Hugel, Sancerre, Chateau Barthez, Chianti Classico og Barolo, allar á 3.300-3.800 krónur. Brunello di Montalcino kostar 6.400 krónur.

Djörf notkun á mildu kryddi

Matreiðsla Búmannsklukkunnar hefur sérstakan stíl, sem greinir hana frá öðrum veitingastöðum. Einkenni hennar er mikil og djörf notkun á mildum kryddtegundum í sjávarrétti.

Jónas Kristjánsson

DV