Búrfellsgötur

Frá Hæðarenda í Grímsnesi til Gjábakka í Þingvallasveit.

Þetta er leiðin, sem sendiboði Gissurar Þorvaldssonar reið árið 1238 til Sturlu Sighvatssonar, sem kominn var með lið sitt að Hrafnabjörgum í Þingvallasveit. Leiðin er austan Búrfells í Grímsnesi. Hún er sýnd þar á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1849 og leifar hennar sjást enn í landinu. Sturla og Gissur riðu frá Hrafnabjörgum og Gjábakka að Apavatni. Síðan fóru þeir um Bakkagötur til Klausturhóla og Hæðarenda og komu þar inn á suðurenda þessarar leiðar á ferð þeirra til Reykja í Ölfusi. Flott væri, að þessar fornu götur yrðu endurvaktar, því að þær eru sagnfræðilega mikilvægar.

Byrjum á þjóðvegi 351 hjá Hæðarenda við Klausturhóla norðan Seyðishóla. Förum til norðurs um Búrfellsgötur austan Búrfells og vestan Bauluvatns norður í Búrfellsdal og áfram norður í vesturjaðri Lyngdalsheiðar um Drift að Gjábakka í Þingvallasveit. Og loks öðru hvoru megin við Heiðargjá norður að eyðibýlinu Hrafnabjörgum.

Við vitum ekki nákvæmlega, hvar þessi leið hefur legið, en gamlar götur eru austan við Búrfell.

20,3 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Bakkagötur, Álftavatnsvað, Dráttarhlíð, Lyngdalsheiði, Hrafnabjörg, Skógarkot, Prestastígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason