Búrgund

Veitingar

Góðbú í Búrgund
Beztu veitingastaðir Frakklands bera af erlendum eins og gull af eiri, enda tala Frakkar um kokka eins og aðrir Vesturlandabúar tala um frægðarfólk. Hjarta franskrar matargerðarlistar hefur lengi slegið í Búrgund, þaðan sem nýklassíska byltingin sigraði Frakkland á áttunda áratugnum. Í kjölfar vinnu í Lausanne fór ég vikulangt í minnisstæða pílagrímsferð milli góðbúa héraðsins í matargerðarlist árið 1986.

Öryggi hjá Girardet
Ferðin hófst raunar í nágrenni Lausanne í franska Sviss, þar sem Alfred Girardet á glæsilegan veitingastað í gömlu ráðhúsi í Crissier. Ég man eftir hlýju snillingsins, sem gaf sér tíma til að ræða við mig um frábæran humar með hvítri graslaukssósu. Löngu seinna naut ég að endurlifa þar hástig virðulegrar matargerðarlistar. Nú hefur Rochat tekið við stjórnartaumunum, en gæðin eru traust sem fyrr.
Crissier (Sviss): Hotel de Ville, 1 rue d’Yverdon, sími: 21 634 0505, fax: 21 634 2464

Ilmur hjá Blanc
Frá George Blanc man ég eftir mögnuðum ilmi blómagarðsins við ána Veyle, þar sem allt sameinaðist í meistaraverkum persónulegs matargerðarstíls, þar sem ilmur og bragð fengu að halda forræði sínu í litadýrðinni. Hann kunni bezt allra að sameina tindrandi ferskt hráefni og hárnákvæma eldamennsku. Kjúklingalifur með svartberja-edikssósu var hátindur pílagrímsferðarinnar.
Vonnas: George Blanc, sími: 47 450 9090, fax: 47 450 0880

Sjarmi hjá Troisgros
Frá nútímalegu veitingahúsi bræðranna og feðganna Troisgros andspænis járnbrautarstöðinni í Roanne man ég bezt eftir gamansamri og viðkunnanlegri framgöngu annars bróðurins, Pierre, sem gekk milli borða og útskýrði krabbasúpu með léttsýrðu grænmeti. Sonurinn Michel er nú orðinn yfirkokkur staðarins og heldur fyrra gæðastaðli.
Roanne: Freres Troisgros, Place Gare, sími: 47 771 6697, fax: 47 770 3977

Hráefni hjá Chapel
All hafði sinn sérstaka keim í undirfögrum veitingasalnum hjá Alain Chapel. Meira að segja brauð og smjör ilmuðu eins og franskt sumar. Hugmyndarík matreiðsla féll vel að heimsins ferskasta hráefni, einkum í saffrankryddaðri þykkvalúru. Nú hefur Philippe Jousse tekið við stjórnartaumunum í Mioannay og stjörnunum hjá Michelin hefur fækkað um eina.
Mioannay: Alain Chapel, sími: 47 891 8202, fax: 47 891 8237

Bocuse kóngur
Pílagrímsferðin endaði svo tveimur klössum neðar hjá Bocuse kóngi í úthverfi Lyon, þar sem hann hefur neglt firnastórt málverk af sér utan á húsið og nokkur minni málverk af sér innandyra. Ég kom raunar til hans aftur fyrir tveimur árum. Í bæði skiptin óð auglýsingakóngurinn útblásinn um sali.
Maturinn var í hvorugt skiptið hugmyndaríkur eða minnisstæður, nema hvað ekkert svartsveppabragð var að frægu svartsveppasúpunni í seinni heimsókninni. Gestir voru þá einkum fávíst peningafólk og kokkar frá Noregi, enda skilst mér, að franskir matgæðingar hafi fyrir löngu afskrifað hinn sjálfhverfa kóng.
Collonges: Poul Bocuse, Pont de Collonges Nord, sími: 47 242 9090, fax: 47 227 8587

DV