Burma strikuð út

Greinar

Fyrir rúmri viku var hætt við að undirbúa framleiðslu á hollenzkum Heineken bjór og dönskum Carlsberg bjór í Burma. Hinir evrópsku framleiðendur töldu, að frekari undirbúningur gæti varpað skugga á ímynd vörumerkja sinna í heimalöndunum í Evrópu.

Vaxandi þrýstingur er nú á bandarísk og evrópsk fyrirtæki að hætta við fjárfestingar í Burma vegna óhugnanlegrar stjórnar herforingja þar í landi. Tillögurnar um viðskiptabann eru upprunnar hjá frelsishetju Burma, nóbelsverðlaunahafanum Daw Aung San Suu Kyi.

Röksemdir frúarinnar í Burma eru hinar sömu og Nelsons Mandela á sínum tíma, þegar hann hvatti til viðskiptabanns á Suður-Afríku. Slíkt bann stuðlar að falli harðstjóranna á staðnum. Það er æskilegt markmið, þótt það kosti almenning nokkrar fórnir um tíma.

Suu Kyi og Mandela hafa bæði sett fram rækilega röksemdafærslu gegn því sjónarmiði, að ekki skuli beita efnahagslegum refsiaðgerðum gegn ríkjum, af því að það komi þyngst niður á almenningi í landinu. Almennt hefur röksemdafærsla viðskiptabanns verið tekin gild.

Ýmis Asíufyrirtæki hlaupa í skarð bandarísku og evrópsku fyrirtækjanna, sem hafa gefizt upp á Burma. Asíufyrirtækin beita sömu röksemd og áður var beitt til stuðnings viðskiptum við Suður-Afríku og segja þar að auki, að jákvæð samskipti og viðskipti bæti ástandið.

Skemmst er frá því að segja, að sagnfræðileg reynsla er fyrir því, að jákvæð samskipti og viðskipti bæta ekki ástandið í ríkjum harðstjórnar, heldur gera þau illt verra. Þetta er til dæmis að koma í ljós um þessar mundir í Kína og þar á undan greinilega í ljós í Serbíu.

Þeir, sem stunda viðskipti við Burma, til dæmis með því að ferðast þangað, efla gjaldeyristekjur herstjórnarinnar og framlengja ævidaga hennar. Þetta gildir um íslenzka ferðalanga eins og aðra. Sérhver verður að eiga við sjálfan sig, hvort hann telur það við hæfi.

Segja má, að þetta gildi um ýmis önnur lönd, þar sem stjórnarfar er afleitt og stríðir gegn grundvallarlögmálum mannréttinda. En einhvers staðar verður að draga mörkin. Nægilegt er að beina athyglinni að nokkrum verstu ríkjunum í senn og líta mildari augum á önnur.

Ástand mannréttinda í Indónesíu er ekki eins slæmt og í Burma. Því getur það verið siðferðilega heilbrigt sjónarmið ferðamanns að skoða fremur fornfræg musteri í Indónesíu en í Burma, þótt bezt gerði hann í að skoða musteri í lýðfrjálsu ríki á borð við Indland.

Nokkur áhætta fylgir samskiptum við siðleysingja. Herstjórnin í Burma tók til dæmis höndum kjörræðismann Norðurlanda í landinu og pyndaði hann til bana. Henni gæti dottið í hug að taka ferðamenn í gíslingu, ef hún teldi það henta sér við einhverjar aðstæður.

Saddam Hussein Íraksforseti tók Vesturlandabúa í gíslingu og Karadzic, forseti Bosníu-Serba, gerði það líka. Hinum fyrrnefnda tókst ekki að ná árangri, en hinum síðarnefnda tókst það. Gestir í slíkum löndum verða að hafa í huga, að valdhafar þar taka skyndiákvarðanir.

Á Vesturlöndum fara nú fram viðræður stjórnvalda um viðskiptabann á Burma. Ekki er ljóst, hver niðurstaðan verður. Hins vegar er ljóst, að margt baráttufólk mannréttinda vill gera Burma að sams konar sýnishorni viðskiptaþvingana og Suður-Afríka var á sínum tíma.

Fjölþjóðafyrirtæki með víðtæka ímyndarhagsmuni á Vesturlöndum eru að strika Burma af verkefnaskránni til að kalla ekki yfir sig refsiaðgerðir fólks.

Jónas Kristjánsson

DV