Burt með allan gaflinn

Hestar

Fengum einu sinni ágætan verkfræðing til að áætla, hversu mikil loftskipti þyrfti í hesthúsinu. Ætluðum að kaupa loftræstikerfi við hæfi. Fræðingurinn náði sér í erlent fagrit um kýr. Þar stóð, að kýr prumpuðu ferlega. Eftir mikla útreikninga tjáði hann okkur, að galopna þyrfti allan gaflinn á hesthúsinu, svo mikil loftskipti þyrfti. Við kvöddum hann og rifum ekki gaflinn. Fengum okkur stóra viftu í strompinn í staðinn. Það virkar vel, engin skítalykt eða súrlykt er í hesthúsinu, bara ilmur af spónum. Og þessi ljúfi ilmur af þurrum og hreinum hestum. Sum verkfræði minnir á hagfræði.