Burt með tanngarðsfólkið

Fjölmiðlun

Mette Fugl hjá Danmarks Radio segir eina delluna, sem drepi fréttir, vera, að meira beri á spyrjanda en viðmælanda. Dellan ríkir víðar en í fréttum. Í gamla daga hafði ég gaman af sjónvarpi um sagnfræði, lönd og náttúru. Slíkir þættir snúast núna um allt annað, um sögumann. Þegar ég vil sjá forna og nýja Persíu, vil ég sjá forna og nýja Persíu, en engan andskotans sögumann með tanngarðinn. Engir slíkir þættir eru lengur í boði, bara endalausar kvikmyndir af Ian Wright eða ýmsu tanngarðsfólki, sem sjónvarpsstöðvar telja merkilegra en Persíu. Mér skilst, að almannatenglar hafi logið þessu rugli að trúgjörnum stöðvarstjórum.