Ögranir og hótanir George W. Bush Bandaríkjaforseta hafa í átta ár haft þveröfug áhrif. “Öxull hins illa” frá Íran til Norður-Kóreu er öflugri en nokkru sinni fyrr. “Annað hvort eruð þið með okkur eða móti” leiddi til andstöðu ríkja við utanríkisstefnu Bandaríkjanna. “Verkefnið hefur tekizt” leiddi til langvinns ósigurs Bandaríkjanna í Írak. Helztu bandamenn Bush eru slúbbertar á borð við Mubarak í Egyptalandi, Musharraf í Pakistan og Gaddafí í Líbýu. Bandaríkin dansa diplómatískan menúett við Rússland og Kína. Bush hefur smám saman verið að breytast í vasaútgáfu af Bill Clinton.