Bush í kröppum sjó

Greinar

Stjórnborðsstigi á herskipinu Belknap brotnaði í einni af þremur tilraunum sjóðliða til að koma Bandaríkjaforseta úr báti um borð í skipið á laugardaginn, þegar höfuðskepnurnar voru nærri búnar að splundra viðræðum forustumanna austurs og vesturs við Möltu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Belknap er í slysafréttum. Árið 1975 lenti þetta flaggskip sjötta flotans í árekstri við flugmóðurskipið John F. Kennedy, svo að upp komu eldar um borð. Átta sjóliðar fórust í baráttunni við eldana. Skipið var síðan fimm ár í viðgerð.

Minnstu munaði, að kjarnorkuslys hlytist af árekstrinum. Eldarnir um borð komust í 12 metra fjarlægð frá kjarnorku-yddum Terrier-eldflaugum. Neyðarkall var sent um, að kjarnasprenging væri yfirvofandi. Allt fór betur en á horfðist eins og við Möltu um helgina.

Enn eru í fersku minni slysin um borð í sovézkum kjarnorkukafbátum undan ströndum Noregs á síðustu misserum. Þau hafa magnað vitund fólks um hættur, sem fylgja viðbúnaði heimsveldanna á höfunum og stuðlað að kröfum um, að úr honum verði dregið skjótt.

Á leiðtogafundinum við Möltu hafnaði George Bush Bandaríkjaforseti algerlega tillögum Mikhails Gorbatsjovs um, að hafnar skyldu viðræður um samdrátt vígbúnaðar á höfunum eins og á öðrum sviðum. Þessi þvergirðingsháttur mun draga dilk á eftir sér.

Ástæðan fyrir neitun Bush er, að Bandaríkjastjórn telur sig eiga nokkurn veginn alls kostar í viðræðum við Sovétstjórnina, sem býr við afleitan fjárhag og neyðist til einhliða samdráttar á mörgum sviðum vígbúnaðar. Bush telur sig ekki þurfa að gefa neitt á móti.

Bush ímyndar sér, að hann sé að skora mark í samkeppni við Gorbatsjov með því að neita að ræða um samdrátt vígbúnaðar á höfunum og komast upp með það. Þetta er í anda valdastefnu, sem einu sinni hrundi með Macchiavelli og í annað sinn með Kissinger.

Efnislega hefur Gorbatsjov rétt fyrir sér. Ef Sovétríkin draga saman seglin meira en Bandaríkin á ýmsum sviðum, þar sem hin fyrrnefndu hafa hingað til haft yfirburði, er sanngjarnt, að Bandaríkin taki þátt í að draga saman seglin á sviði, þar sem þau hafa yfirburði.

Um allan heim munu menn sjá, að þetta er sanngjarnt. Því mun Bush ekki komast upp með þvergirðingsháttinn. Þegar stjórn hans verður seint og um síðir búin að átta sig á álitshnekkinum, sem hún mun bíða, verður fallizt á samdrátt vígbúnaðar á höfunum.

Ljóst er, að forsendur mikils herbúnaðar af hálfu Vesturlanda hafa minnkað á síðustu vikum. Varsjárbandalagið er lamað. Enginn telur í alvöru, að herir nýrra ríkisstjórna í Austur-Evrópu séu eða verði fáanlegir til að taka þátt í sovézkri árás á Vesturlönd.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins á mánudaginn, að viðbrögð Bush hefðu valdið Íslendingum vonbrigðum. Það eru orð að sönnu. Stefna Bandaríkjaforseta er andstæð öryggis- og fiskveiðihagsmunum okkar.

Sem betur fer erum við ekki lengur einir um þá skoðun, að tímabært sé að draga saman seglin í vígbúnaði á höfunum. Ráðamenn í nokkrum öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal í Noregi, eru smám saman að átta sig á, að sérvizka Íslendinga er rétt.

Macchiavelli hefur reynzt mörgum skeinuhættur lærifaðir. Sjóhernaðarsigurinn, sem Bush taldi sig bera frá storminum við Möltu, mun hverfa út í veður og vind.

Jónas Kristjánsson

DV