Saddam Hussein og flokkur hans eru enn við völd í Írak, þótt ár sé liðið frá gagnárás bandamanna í stríðinu við Persaflóa. Sá maður, sem Bush Bandaríkjaforseti kallaði Hitler nútímans, heldur um þessar mundir sigurhátíðir í Bagdad til að minnast sigurs í þessu stríði.
Þegar fyrri bandamenn hófu gagnárás gegn Hitler á sínum tíma, hættu þeir ekki fyrr en þeir höfðu komið honum frá völdum og tryggt lýðræðissinnum völd í Þýzkalandi. Það land er nú orðið að þungamiðju í vestrænu samfélagi. En Írak er verra en það var.
Það var persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að stöðva gagnárásina á Saddam Hussein og flokk hans. Hann gerði það gegn ráðum bandamanna og gegn ráðum sinna eigin herstjóra. Hann ákvað að lýsa yfir sigri, sem ekki var tímabær, og fara heim með liðið.
Það var líka persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að hvetja Kúrda til uppreisnar gegn Saddam. Þeir fóru eftir því og reiknuðu með aðstoð hans. En þá leyfði hann Saddam Hussein að halda landher sínum og flugher undir vopnum til að reka Kúrda á flótta.
Hin ótímabæru stríðslok voru alvarleg mistök manns, sem skortir skilning á alþjóðamálum. Að hann skyldi þar á ofan verða upphafsmaður að nýjum harmleik Kúrda er ekkert annað en stríðsglæpur, sem mannkynssagan mun láta Bush standa reikningsskap fyrir.
Stríð Bush Bandaríkjaforseta við Persaflóa leysti ekki pólitísk vandamál þar og allra sízt í Kúveit. Þar er aftur komin til valda fádæma íhaldssöm furstaætt, sem einbeitir sér að því að brjóta niður lýðræðistilhneigingar, er brutust út í andófinu gegn hernámi Íraka.
Utanríkismál Bush eru raunar samfelld harmsaga. Nýjasti ósigur hans var sneypuförin til Japan, þar sem hann mætti með lið vælukjóa úr atvinnulífinu á borð við Lee Iacoca og uppskar fyrirlitningu Japana, sem vita, að vandræði Bandaríkjanna eru heimatilbúin.
Í júní í fyrra æsti utanríkisráðherra Bandaríkjaforseta Serba til stríðs gegn Slóvenum og Króötum með yfirlýsingu í Belgrad um, að varðveita bæri einingu Júgóslavíu. Stjórn Bush hefur verið allra stjórna síðust að átta sig á, að dagur sambandsríkja er liðinn.
Í ágúst í fyrra lýsti Bush Bandaríkjaforseti því sjálfur yfir í höfuðborg Úkraínu, að framtíð þess lands væri falin í sovézka sambandinu, sem nú hefur verið afnumið. Allt fram á síðasta dag hélt Bush dauðahaldi í það pólitíska lík, sem Gorbatsjov hefur lengi verið.
Bush og ráðgjafar hans hundsuðu sjálfstæðisvilja Eystrasaltsþjóða alveg eins og Úkraínumanna, Slóvena og Króata. Hvarvetna í Austur-Evrópu hefur stjórn hans verið síðust allra að átta sig á óumflýjanlegum breytingum. Hvergi hefur örlað á bandarískri forustu.
Bush, ráðgjafar hans og landsmenn eru haldnir þeirri firru, að hann sé hæfur í utanríkismálum. Svo langt gengur auðnuleysi hans á því sviði, að hann hefur misreiknað einmitt það land, sem hann ætti að þekkja bezt, því að hann var sendiherra þar. Það er rauða Kína.
Bush lætur hina óvenjulega ógeðfelldu valdamenn í Kína njóta beztu viðskiptakjara í Bandaríkjunum. Þeir launa honum með því að gera ekki neitt af því, sem hann mælir með, og reyna fremur að ganga þvert á ráðleggingar hans. Þeir hafa betur í þeirri skák.
Vesturlöndum kemur illa, að sjálft forusturíki þeirra skuli smám saman vera að afsala sér forustu með því að vera kerfisbundið úti að aka í utanríkismálum.
Jónas Kristjánsson
DV