Bush styður Saddam

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti ber ábyrgð á fjöldamorðum hers Saddams Hussein á Kúrdum og sjítum. Hann lét stöðva landhernaðinn í Írak of snemma og leyfði Íraksher að sleppa úr herkvínni með hergögn sín. Þetta gerði hann til að vernda stjórn súnníta á landinu.

Til að bæta gráu ofan á svart gaf Bush í skyn, að bandamenn teldu æskilegt, að uppreisnarmenn í Írak steyptu stjórn Saddams Hussein af stóli. Þar með leiddi hann uppreisnarmenn til slátrunarinnar, sem nú stendur yfir á vegum skjólstæðings hans í Írak, Saddams.

Er uppreisnarmenn voru komnir fram í dagsljósið, kippti Bush að sér hendinni. Hann keyrði yfir ákvarðanir Schwarzkopfs, herstjóra síns, og leyfði Saddam Hussein að beita þyrluher sínum að fullu gegn uppreisnarmönnum. Þannig leiddi Bush Kúrda og sjíta í gildru.

Þetta er eins og DV spáði í leiðara fyrir rúmum mánuði, þegar lauk landhernaði bandamanna í Írak. Þá var enn einu sinni ítrekað hér, að Bush vildi ekki treysta lýðræði í löndum við Persaflóa, heldur styðja við bak miðaldaemíra og harðstjóra gegn Íransklerkum.

Komið hefur í ljós í liðnum mánuði, að Bush er hættur að þiggja ráð evrópskra ráðamanna og hallar sér eingöngu að konungsættinni í Saúdí-Arabíu. Miðaldaprinsarnir og Bush eru sammála um, að einhver herforingi úr röðum súnníta eigi að ráða fyrir Írak.

Að vísu telja Bush og miðaldaprinsarnir, að betra sé, að Saddam Hussein haldi ekki völdum, heldur verði steypt af einhverju öðru óargadýri úr röðum herstjóra súnníta. Að mati Bush og prinsanna má ólgan í Írak ekki leiða til, að völd Kúrda og sjíta aukist.

Ennfremur er prinsum Saúdí-Arabíu og furstadæmanna við Persaflóa mjög illa við, að vestrænir lýðræðisstraumar hafi áhrif á svæðinu. Þeir vilja til dæmis alls ekki, að lýðræðislegra stjórnarfari verði komið á í Kúvæt eftir að landið var unnið úr höndum Írakshers.

Flest bendir til, að emírsættin í Kúvæt ætli að halda fast í fyrri miðaldavöld sín, jafnvel þótt hún geti, vegna uppljóstrana í fjölmiðlum, ekki framkvæmt áætlanir sínar um dauðasveitir gegn lýðræðissinnum. Hún fer að öðru leyti sínu fram í skjóli Bush Bandaríkjaforseta.

Bush er ekki einn um þessa stefnu. Hann er studdur af stofnun, sem Bandaríkjamenn kalla Þokubotna, það er að segja utanríkisráðuneyti landsins. Þar hafa verið elduð mörg mistökin í utanríkisstefnu Bandaríkjanna á síðustu áratugum og þetta mál er eitt þeirra verstu.

Komið hefur í ljós, að utanríkisráðuneytið studdi Saddam Hussein alveg fram að fyrsta degi stríðs hans gegn Kúvæt. Það studdi hann til árásarstríðs gegn Íran, lokaði augum fyrir notkun hans á efnavopnum gegn Kúrdum og rosalegu vígbúnaðarkapphlaupi hans.

Utanríkisráðuneyti og forsetaembætti Bandaríkjanna hafa skipulega hunzað lýðræðisöfl meðal írakskra útlaga og jafnvel kerfisbundið neitað þeim um áheyrn. Þetta gilti fyrir innrásina í Kúvæt, sem útlagarnir höfðu réttilega spáð, og gildir enn þann dag í dag.

Bush Bandaríkjaforseti var fyrir rúmum mánuði sigurvegari stríðsins við Persaflóa. Frá þeim tíma hefur hann notað aðstöðu sína sem sigurvegari til að hjálpa hinum sigraða við að kveða Kúrda og sjíta í kútinn í eitt skipti fyrir öll. Hans ábyrgð er þung sem blý.

Það eru fleiri en Saddam Hussein, sem hafa gerzt sekir um hrikalega glæpi gegn mannkyninu. Bush Bandaríkjaforseti er einn af verra taginu.

Jónas Kristjánsson

DV