Bandaríska krabbameinsfélagið og nokkur önnur heilbrigðissamtök í Bandaríkjunum fullyrða, að ríkisstjórn George W. Bush forseta gangi erinda tóbaksframleiðenda af miklum þunga og sé að reyna að grafa undan fjölþjóðlegu tóbaksvarnaþingi á vegum Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar. Fulltrúar þriðja heimsins á ráðstefnunni saka Bandaríkin um að reyna markvisst að draga allar tennur úr væntanlegri niðurstöðu þingsins. Flest ríki heimsins vilja víðtækar aðgerðir gegn tóbaki, þar á meðal auglýsingabann og strangar viðvaranir á umbúðum. Bandaríska sendinefndin hefur hótað, að styrkir til alþjóðlegra tóbaksvarna verði afnumdir, ef hún nái ekki vilja sínum fram á þinginu. Alfred Munzer, talsmaður bandaríska lungnafélagsins, segist skammast sín fyrir ríkisstjórn lands síns. Um þetta var fjallað á BBC í gær.