Búvörumafían sækir fram

Greinar

Ánægjulegt er, að þingmenn, með Karl Steinar Guðnason í broddi fylkingar, hafa gert tilraun til að vara ríkisstjórnina við áformum búvörumafíunnar um að ná tökum á eggjaframleiðslu í landinu ­ gegn hagsmunum launþega, neytenda og skattgreiðenda.

DV hefur undanfarnar vikur skýrt frá tilraunum gælufyrirtækisins Íseggs til að kaupa eggjaframleiðsluhluta Holtabúsins og ná þannig tæpum eða rúmum helmingi eggjadreifingarinnar í landinu. Með því fengi Ísegg lagalegan grunn til að heimta kvótaskiptingu.

Ísegg er eitt af nýjustu gæludýrum búvörumafíunnar. Því var komið af stað með fé úr sjóðum, sem neytendur halda uppi í verði ýmissar einokunarvöru hins hefðbundna landbúnaðar. Það átti að safna smáframleiðendum saman undir hatti búvörumafíunnar.

Þannig átti að nota peninga neytenda til að gera framleiðslu mafíubændanna ódýrari en framleiðslu hinna sjálfstæðu bænda, sem reka stórbú og halda niðri verði á eggjum. Þannig átti smám saman að koma upp einokun, eins og einnig hefur verið reynt með Ísfugli.

Þetta hefur gengið hrapallega. Ísegg er á heljarþröm og rambar á barmi gjaldþrots. Reksturinn hefur verið í þungum stíl búvörumafíunnar. Fyrirtækið hefur greitt eggjabændum seint og illa og lítið, svo að margir þeirra hafa gefizt upp á viðskiptunum við gæludýrið.

Ráð búvörumafíunnar til lausnar er, að Ísegg kaupi stærsta eggjabú landsins, eggjahluta Holtabúsins. Þar með fengi Ísegg hinn langþráða helming eggjadreifingarinnar í landinu og gæti krafizt þess, að samkeppni yrði lögð niður með kvótakerfi.

Samkvæmt búvörulögum, sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn bera ábyrgð á, er landbúnaðarráðherra heimilt að skella kvótakerfi á nýjar búgreinar, ef meirihluti framleiðenda í viðkomandi grein fer fram á það. Þetta vald vill ráðherra nota.

Þar sem Ísegg getur ekki keypt eggjahluta Holtabúsins af eigin rammleik, er enn einu sinni leitað til eins hinna mörgu sjóða, sem búvörumafían liggur á. Fram leiðnisjóður landbúnaðarins hefur tekið á sínar herðar 50­70 milljón króna ábyrgð handa Íseggi til kaupanna.

Framleiðnisjóður hefur beðið landbúnaðarráðherra að heimila þessa fáránlegu fyrirgreiðslu. Í umræðunum á Alþingi í gær lofaði ráðherrann að bera málið upp í ríkisstjórninni. Því er ekki enn ljóst, hvort búvörumafíunni tekst að ná eggjaframleiðslunni undir sig.

Ef það tekst, er fyrst settur á kvóti og verðið síðan hækkað í skjóli einokunarinnar, nákvæmlega eins og gert hefur verið í hinum hefðbundnu greinum, mjólkur- og sauðfjárafurðum. Þar hefur slík framleiðslustýring leitt til okurverðs og offramleiðslu í senn.

Markmið búvörumafíunnar er tvíþætt. Annars vegar vill hún gera smáum og óhagkvæmum framleiðendum kleift að halda áfram í skjóli okurverðs. Hún vill hlífa þeim fyrir samkeppni frá stóru búunum, sem hafa þanizt út, af því að þau hafa boðið neytendum lægra verð.

Hitt markmiðið er að hækka svo verð á afurðum hliðarbúgreinanna, að þær valdi hinum hefðbundnu búgreinum minni samkeppni en ella. Búvörumafían vonar, að á þann hátt megi aftur færa hluta neyzlunnar til hinna hefðbundnu greina og lækka afurðafjöllin þar.

Sókn búvörumafíunnar er á kostnað neytenda, einkum láglaunafólks, svo og skattgreiðenda. Ef hún nær eggjunum, tekur hún kjúklingana og svínakjötið næst.

Jónas Kristjánsson

DV