Búvörur fyrir fisk

Greinar

Evrópubandalagið kann fyrir haustið að slá af kröfum sínum um fiskveiðirétt í efnahagslögsögu Íslands, en engin umtalsverð merki slíks hafa sézt enn. Viðræður Fríverzlunarsamtakanna við bandalagið um evrópskt efnahagssvæði hafa að þessu leyti gengið fremur illa.

Viðræðunum átti að ljúka fyrr í vetur, en hafa dregizt á langinn. Búizt er við, að samkomulag náist ekki fyrr en í haust. Evrópubandalagið hefur sem fyrr reynzt þungt á bárunni, enda er ekki laust við, að sumir ráðamenn þess kæri sig lítið um fyrirhugað efnahagssvæði.

Embættismennirnir, sem ráða miklu um ferð Efnahagsbandalagsins í viðræðunum, vilja draga úr sjálfstæði einstakra bandalagsríkja og efla völd miðstjórnarinnar. Það er eðli embættismanna að vilja sem minnsta valddreifingu, af því að hún skerðir völd þeirra.

Vegna þessa hafa margir ráðamenn bandalagsins áhyggjur af evrópsku efnahagssvæði, sem væri losaralegra í sniðum en hið miðstýrða bandalag, drægi nokkurn dám af Fríverzlunarsamtökunum og leyfði einstökum ríkjum Evrópu meira neitunarvald og sjálfsforræði.

Enn hafa samstarfsþjóðir okkar í Fríverzlunarsamtökunum ekki fórnað hagsmunum Íslands. Enginn veit, hvað gerist í lokahrinu viðræðnanna í haust, en ekki er ástæða til að fara á taugum vegna þess. Við verðum bara að gæta þess vel, að þeir bili ekki.

Norðmenn hafa valdið okkur erfiðleikum með kröfu um sömu reglur fyrir sig og Íslendingar fái, hvað varðar fiskinn. Þetta er fráleitt, því að þar er sjávarútvegur hluti af ríkisstyrktri byggða- og landbúnaðarstefnu, en hér er hann sjálfur hornsteinn þjóðfélagsins.

Norðmenn lifa á olíu og gasi, stóriðju og siglingum. Þeir geta leyft sér að nota sjávarútveg sem eins konar grein af ríkisbúskapnum til að halda byggð á afskekktum stöðum, til dæmis í nágrenni Sovétríkjanna. Við þurfum hins vegar að lifa á sjávarútvegi.

Samhliða viðræðunum um efnahagssvæði Evrópu þurfum við að leggja áherzlu á beinar viðræður við pólitíska aðila, sem hafa áhrif á stefnu Evrópubandalagsins. Við þurfum að reyna að grafa undan pólitískum stuðningi við samningshörku embættismannanna.

Þetta má gera með gagnkvæmum heimsóknum ráðherra, svo sem sjávarútvegsráðherra okkar hefur gert. Með seiglu og lagi er hægt að koma á framfæri, að bezt sé, að hver fyrir sig hafi frið til að stunda sérgrein sína í samkeppni við ríkisrekna atvinnuvegi annarra.

Svo vel vill til, að Evrópubandalagið hefur boðið upp á aðra lausn en þá, að erlend skip fái að veiða í lögsögu Íslands. Hún felst í, að á móti lækkun og afnámi tolla á íslenzkum fiski komi leyfi til innflutnings til Íslands á landbúnaðarvörum frá löndum Evrópubandalagsins.

Við höfum tvöfaldan ávinning af þessari leið. Við fengjum að hafa sjávarútveginn í friði og fengjum ódýrari mat en við fáum nú. Innlendir hagfræðingar hafa reiknað, að gróði íslenzkra neytenda af innflutningsfrelsi búvöru muni nema um 13 milljörðum á ári.

Þetta er raunar eina leiðin, sem við höfum til að ná árangri gagnvart Evrópubandalaginu, hvort sem er í sameiginlegu viðræðunum um evrópskt efnahagssvæði eða í beinum viðræðum okkar við bandalagið um aðild okkar að því eða um nýjan viðskiptasamning við það.

Innflutningsfrelsi búvöru á móti varðveizlu fiskveiðilögsögu er lykill árangurs í mikilvægustu milliríkjaviðræðum okkar síðan við tókum öll mál í eigin hendur.

Jónas Kristjánsson

DV