Búvöruruglið framlengt

Greinar

Búvörusamningur landbúnaðarráðherra gefur tóninn um, hvernig haldið verður á málum landbúnaðarins út þessa öldina. Þjóðarsáttarmenn samtaka launamanna og vinnuveitenda voru ginntir til að leggja drög að honum og enginn stjórnmálaflokkur mun stöðva hann.

Þótt formaður Alþýðuflokksins hafi sagt, að búvörusamningurinn sé siðlaus og stórgallaður, hefur sú ein breyting orðið á samningnum, frá því að hann kom frá þjóðarsáttarmönnum, að hann er orðinn dýrari og verri en fyrr, kostar rúmlega fjórum milljörðum meira.

Þetta stafar af, að landbúnaðarráðherra tók meira mark á athugasemdum frá voldugum hagsmunasamtökum landbúnaðarins en áhrifalitlum Alþýðuflokki, sem að venju hefur lyppast niður eftir nokkurt gelt, nákvæmlega eins og spáð hafði verið hér í blaðinu.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkisstjórn eftir kosningar, mun hann staðfesta samninginn, enda lýsti flokkurinn á landsfundi stuðningi við samninginn í því ástandi, sem hann kom frá þjóðarsáttarmönnum. Samtök landbúnaðarins eru því með pálmann í höndunum.

Samkvæmt búvörusamningnum verður farin afar dýr leið að samdrætti í framleiðslu búvöru. Hún er svo dýr, að ekkert sparast, heldur verður kostnaður meiri en ella, fyrstu árin að minnsta kosti. Er þá aðeins miðað við þau kurl, sem þegar eru komin til grafar.

Alvarlegasti galli búvörusamningsins er, að hann gerir enga tilraun til að markaðstengja landbúnaðinn. Áfram er gert ráð fyrir lokuðu og ofanstýrðu kerfi, sem ekki miðar við alþjóðlegt markaðsverð. Hagsmuna neytenda er hvergi gætt í hinum nýja búvörusamningi.

Búvörusamningurinn gerir ráð fyrir, að niðurgreiðslum og útflutningsbótum verði breytt í beina styrki til bænda. Jafnframt hyggst ríkið borga sauðfjárbændum til að hætta eða minnka við sig. Hvort tveggja er til bóta, en felur þó í sér óbreytt útgjöld skattgreiðenda.

Miklu eðlilegra hefði verið að keyra samhliða á báða þætti málsins, neytenda og skattgreiðenda. Ef kerfisbreytingunni hefði fylgt afnám innflutningsbanns í áföngum, gætu neytendur notið góðs af henni, jafnvel þótt byrði skattgreiðenda héldist óbreytt enn um sinn.

Þar sem fólkið í landinu er í senn neytendur og skattgreiðendur, hefði hin dýra aðferð við að draga úr búvöruruglinu orðið almenningi bærilegri en hún er samkvæmt búvörusamningnum. Með lægra matarverði hefði verið auðveldara að afsaka hina miklu skattbyrði.

Fólkið í stéttarfélögunum mætti hugleiða, að það voru umboðsmenn þess í Sjö manna nefnd, sjálfir verkalýðsrekendurnir, er gáfu tóninn að búvörusamningi, sem felur ekki í sér neina fyrirsjáanlega lækkun á matarkostnaði heimilanna eða skattgreiðslum heimilanna.

Fólkið í landinu mætti svo um leið hugleiða, að alls enginn stjórnmálaflokkur í komandi kosningabaráttu er reiðubúinn að standa gegn búvörusamningi, sem felur ekki í sér neina fyrirsjáanlega lækkun á matarkostnaði heimilanna eða skattgreiðslum heimilanna.

Þeir, sem horfa til framtíðar, mættu svo hugleiða, að búvörusamningurinn felur í sér orðalag, sem mun verða notað til að standa gegn því, að Ísland nái hagkvæmum samningum um fiskveiðar og fiskútflutning í viðræðum um fríverzlun og efnahagsbandalög í umheiminum.

Engin lækning fæst á búvöruruglinu án þess að leyfa innflutning á búvöru. Nýi samningurinn tekur ekki á þeim vanda, né gerir það nokkur stjórnmálaflokkur.

Jónas Kristjánsson

DV