Búvörusamningur á sandi

Greinar

Ríkisstjórnin og stofnanir landbúnaðarins eru að gera búvörusamning, sem byggist á fölskum forsendum. Hann gerir meðal annars ráð fyrir, að neyzla dilkakjöts verði framvegis töluvert meiri en hún er nú og að hægt verði að selja útlendingum dilkakjöt á hærra verði en nú.

Raunveruleikinn er annar. Neyzla dilkakjöts í landinu mun halda áfram að minnka og verðlag í útflutningi mun halda áfram að lækka. Engin ástæða er til að ætla, að þessar breytingar staðnæmist við nýjustu tölur um þessi efni. Þvert á móti munu tölurnar halda áfram að lækka.

Kjötneyzla fer minnkandi með breyttum lífsháttum. Kornvara er sífellt að verða fyrirferðarmeiri í neyzluvenjum kynslóðanna, sem bætast við í hópi viðskiptavina matvöruverzlana. Á sviði skyndibita til dæmis eru hamborgarar á undanhaldi, en pöstur og pizzur í sókn.

Hin opinbera stefna stöðnunar og íhalds, láglauna og atvinnuleysis verður við völd í þjóðfélaginu næstu árin. Hún stuðlar að fráhvarfi almennings frá dýrum matvælum yfir í ódýr. Fólk flytur neyzlu sína frá íslenzkum matvælum yfir í innfluttan kornmat af ýmsu tagi.

Ekkert er í sjónmáli, sem geti snúið þessu við. Ríkið og samtök landbúnaðarins hafa varið tugum milljóna króna í hverja áróðursherferðina á fætur annarri fyrir neyzlu dilkakjöts, án þess að nokkur merki árangurs sjáist. Sölumennska er ekki þessara meina bót.

Erlendi markaðurinn er að hrynja eins og sá innlendi, en af allt öðrum ástæðum. Aðrar þjóðir en Íslendingar taka af alvöru þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um minnkun hindrana í vegi alþjóðaviðskipta. Þetta hefur til dæmis gefið nýsjálenzku dilkakjöti meira svigrúm.

Þótt Íslendingar verði ekki varir við þetta aukna frelsi, af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma í veg fyrir það, verða nágrannaþjóðirnar varar við það. Nýsjálenzkt kjöt er til dæmis á boðstólum í Svíþjóð á miklu lægra verði en íslenzka kjötið og hefur rutt því burtu.

Íslendingar eru ekki samkeppnishæfir við Nýsjálendinga í sölu dilkakjöts á alþjóðamarkaði. Þeir geta án opinberra styrkja þarlendra stjórnvalda selt sitt kjöt á svo lágu verði, að það gæfi alls ekki neitt skilaverð til framleiðenda að selja íslenzkt dilkakjöt á sama verði.

Engar horfur eru á, að þetta snúist við á næstu árum. Aðstæður á Nýja-Sjálandi eru slíkar, að framleiðni dilkakjöts er þar óhjákvæmilega mun meiri en á Íslandi. Búin eru þar margfalt stærri en hér og að mestu er þar óþarft að hafa sérstök húsakynni og heyskap vegna sauðfjár.

Á síðari árum hafa menn helzt bundið vonir við að hægt sé að selja dilkakjöt sem lúxusvöru eða sem vistvæna vöru. Tilraunir í þá átt benda ekki til, að ástæða sé til mikilla vona á því sviði. Flest bendir til, að þar séu á ferð enn einar sjónhverfingarnar í landbúnaðinum.

Kjötbirgðir eru að hlaðast upp í landinu. Engir kaupendur eru að þessu kjöti, hvorki innnan lands né utan. Það eldist smám saman og verður að lokum urðað, engum til gagns. Nýr búvörusamningur ætti að taka tillit til þessara staðreynda, en virðist ekki munu gera það.

Miklu nær væri fyrir stofnanir landbúnaðarins og ríkisstjórnina að viðurkenna staðreyndir markaðarins og gera róttækar ráðstafanir til að bjarga sem flestum bændum frá vonleysi sauðfjárbúskapar. Tilraunir í þá átt hafa ekki verið nógu markvissar til að skila nægum árangri.

Kjörið er að nota tækifærið til að afnema sauðfjárbúskap í viðkvæmustu héruðum móbergssvæða landsins og koma þannig í veg fyrir ofbeit og gróðureyðingu.

Jónas Kristjánsson

DV