Byggðasafn forstjóranna

Greinar

Undir leiðsögn forsætisráðherra er ríkisstjórnin að velta fyrir sé, hvernig ríkið geti nýtt sér nýbyggt stórhýsi Sláturfélags Suðurlands í Laugarnesi. Ríkið þarf raunar ekki þetta húsnæði, en er að reyna að hjálpa Sláturfélaginu, sem getur ekki komið húsinu í verð.

Það sjónarmið nýtur vaxandi fylgis, að opinberum aðilum beri að hlaupa til hjálpar, ef fyrirtækjum úti í bæ gengur illa, til dæmis með því að kaupa af þeim fasteignir, sem ekki ganga út á almennum fasteignamarkaði. Hús Sláturfélagsins er eitt dæmi af mörgum.

Þannig keypti borgin Broadway til að hjálpa eigandanum við að halda sjó á erfiðum tíma. Ekki er enn séð, hvort ætlunarverkið tekst. En borgin hefur sloppið fyrir horn í málinu með því að losna við húsið aftur á sama verði. Hið opinbera er ekki alltaf svo heppið.

Reykjavík ætlaði einnig að kaupa Vatnsenda, ekki vegna þess að borgin þyrfti endilega þetta land á þessum tíma, heldur til að útvega seljendum fjármagn til að nota til að bjarga sjónvarpsstöð frá falli. Það var bara þvermóðska í Kópavogsbæ, sem hindraði góðverkið.

Nú er Reykjavík að velta fyrir sér að veita sjónvarpsstöðinni ábyrgð, sem er raunar enn notalegra en að kaupa Vatnsenda, því að formlega séð fylgja slíkri ábyrgð engin útgjöld. Ef skuldin fellur í óvissri framtíð, fer hún bara inn á fjármagnskostnað hjá borginni.

Búast má við, að fleiri fylgi í kjölfarið. Hundruð fyrirtækja í Reykjavík hafa þegar orðið gjaldþrota á síðustu misserum og annar eins fjöldi rambar á barmi gjaldþrots. Þessi fyrirtæki munu vafalaust fá góðar viðtökur hjá borginni, úr því að atvinna borgarbúa er í húfi.

Borgin er rétt að byrja að feta braut góðverkanna, þótt áður hafi hún bjargað frystihúsinu Ísbirninum frá falli og látið nokkra illa stadda lóðareigendur fá leyfi fyrir gífurlega háu nýtingarhlutfalli á lóðum til að koma þeim í mun hærra verð en ella hefði verið.

Ríkið hefur lengri og meiri reynslu á þessu sviði. Það hefur gleypt óhentug eða illa byggð stórhýsi, sem enginn vildi kaupa, ekki einu sinni fyrir brot af því verði sem ríkið keypti þau á. Skemmst er að minnast húsa Mjólkursamsölunnar og Víðis við ofanverðan Laugaveg.

Fyrir utan þetta hefur ríkið verið athafnasamt í kaupum á hæðum og húsum úti um allan bæ. Gott er að geta hallað sér að Stóra bróður, er menn hafa ofkeyrt sig á góðvildinni, sem þeir hafa notið í bönkum ríkisins, og eru að springa í loft upp á vaxtakostnaði.

Fátækir athafnamenn eru raunar um það bil að hætta að þreifa fyrir sér með sölu fasteigna á almennum markaði, þar sem hugsanlegir kaupendur hafa leiðinlegar skoðanir á verðgildi steypu. Miklu betra er að nota pólitísk sambönd til að fá ríkið til að borga uppsett verð.

Þetta er eins konar framlenging á byggðastefnu til Reykjavíkur. Auðvitað er ósanngjarnt, að forstjórar, sem þarfnast velferðar, neyðist til að vera úti á landi til að njóta náðar stofnana og sjóða ríkisins. Sæluríki forstjóravelferðar nær núna til Reykjavíkur.

Þegar íslenzka hagkerfið er ýmist fallið eða að falla í Austur-Evrópu, er gott að heimurinn hafi einhvers staðar aðgang að byggðasafni um velferðarríki forstjóra.Jónas Kristjánsson

DV