Bylta Kohls og Chiracs

Greinar

Evrópusinnar hafa fengið tvær slæmar byltur á síðustu dögum. Fyrst lenti Helmut Kohl Þýzkalandskanslari í útistöðum við þýzka seðlabankann vegna fyrirhugaðs Evrópugjaldmiðils og síðan tapaði Jacques Chirac Frakklandsforseti herfilega í frönsku kosningunum.

Útreið Kohls hefur vakið minni athygli, en er þó ekki ómerkari. Þýzki seðlabankinn vakti athygli á, að Kohl væri með bókhaldsbrellum að reyna að láta líta svo út, að Þýzkaland uppfyllti skilmála evrópska myntbandalagsins um aðild að fyrirhuguðu Evrópumyntinni.

Ríkisstjórn Kohls hefur staðið í fylkingarbrjósti þeirra, sem vilja engin frávik frá því, að lönd uppfylli skilyrðin, sem fela í sér lága verðbólgu, lágan fjárlagahalla, litlar ríkisskuldir og lága vexti. Markmið stífninnar var meðal annars að reyna að hindra aðild ótraustrar Ítalíu.

Þjóðverjum er annt um þýzka markið. Kohl taldi sig ekki geta selt löndum sínum hugmyndina um nýja mynt, ef Ítalir væru aðilar að henni, af því að gamlir fordómar úr styrjöldum aldarinnar valda því, að Þjóðverjum er gjarnt að fyrirlíta Ítali og telja þá ótrausta.

Ítalir hafa hins vegar ekki látið deigan síga og eru ekki fjær því en Þjóðverjar að uppfylla skilyrði myntbandalagsins. Við blasti, að eitthvað yrði undan að láta. Mæltu flestir fjármálafræðingar með lengri aðlögunartíma. Nýju Evrópumyntinni yrði frestað um nokkur ár.

Þýzka stjórnin tilkynnti þá, að breytt yrði matinu á þýzka gullforðanum til að minnka fjárlagahallann. Seðlabankinn sagði auðvitað, að þetta væri einnota bókhaldsbragð, sem ekki bætti stöðu landsins. Þá tilkynnti þýzka stjórnin, að hún mundi breyta seðlabankalögunum.

Þýzka stjórnin hefur auðvitað orðið að athlægi um alla Evrópu vegna ódýrrar tilraunar til að uppfylla skilyrði myntbandalagsins. Þótt Kohl takist að kúga seðlabankann, hefur hann misst niður um sig buxurnar og verður vafalaust að fresta innreið Evrópumyntarinnar.

Helzti stuðningsmaður Kohls í Evrópustefnunni hefur verið Chirac Frakklandsforseti, sem tók áhættu til að afla sér friðar fyrir kjósendum, meðan hann væri á lokasprettinum við að ná skilyrðum myntbandalagsins. Hann efndi til óþarfra kosninga til að endurnýja umboðið.

Chirac tapaði kosningunum og verður að tilnefna sósíalista sem forsætisráðherra og sætta sig við, að allir ráðherrarnir verði sósíalistar. Áherzlur þeirra eru allt aðrar en hans. Þeir vilja til dæmis ekki setja þjóðfélagið í spennitreyju til að uppfylla fjármálaskilyrðin.

Með nýjum forsætisráðherra, Lionel Jospin, hefur orðið til nýtt Evrópusamfélag, þar sem jafnaðarmenn eða ígildi þeirra ráða flestum stærstu ríkjum álfunnar, Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu. Jospin mun leggja á ráðin með Tony Blair frá Bretlandi og Prodi frá Ítalíu.

Þeir munu segja Kohl að anda rólega, því að hann hafi ekki vit á fjármálum, svo sem sannazt hafi, er hann skipti austurþýzku mörkunum á jöfnu fyrir vesturþýzk. Vegna afleiðinga þeirra mistaka þurfi Kohl núna að reyna að svindla á skilyrðum myntbandalagsins.

Evrópuhugsjónin mun ekki bila, þótt nýir menn taki við forustu. Hún verður sennilega raunsærri. Meiri áherzla verður lögð á breikkun samstarfs fremur en dýpkun þess. Myndað verður brezk-fransk-ítalskt bandalag, sem leysir fransk-þýzka bandalagið af hólmi.

Nýju mennirnir munu forðast að keyra samstarfshugsjónina hraðar og dýpra en almenningur vill, svo að síður komi fleiri brestir í innviði þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV