Nýgerður kjarasamningur verzlunarmanna er bylting. Í fyrsta skipti í sögu vinnumála hér á landi er samið um 90.000 króna lágmarkslaun, 36 stunda vinnuviku og 14% greiðslur í lífeyrissjóð. Samningurinn mun vekja eftirtekt og öfund langt út fyrir raðir verzlunarfólks.
Viðsemjendur annarra stéttarfélaga segja auðvitað, að samningur verzlunarmanna hafi ekki fordæmisgildi. Það er innantómt slagorð, því að samningurinn veldur þrýstingi á samningamenn launþega, sem án efa mun hafa áhrif á niðurstöður annarra kjarasamninga.
Áður námu greiðslur í lífeyrissjóð 10% af launum, þar af 6% frá atvinnurekendum. Samkvæmt samningi verzlunarfólks nema greiðslur í lífeyrissjóð þeirra hér eftir 14%, þar af 8% frá atvinnurekendum. Viðbótin rennur í hina nýju séreignadeild lífeyrissjóðsins.
Áður voru greiðslur í séreignasjóði og séreignadeildir heimilar, en nú eru þær umsamdar hjá verzlunarmönnum. Lífeyriskerfi með 10% greiðslu í sameignarsjóð og 4% greiðslu í séreignasjóð hlýtur í tímans rás að gerbreyta lífsskilyrðum fólks á eftirlaunaaldri.
Einn af hornsteinum velferðar er eftirlauna- og örorkukerfi með uppsöfnun peninga, sem tryggir fólki mannsæmandi lífskjör, þótt hlutfall vinnandi fólks af heildarmannfjölda fari ört lækkandi. Slíkt öryggi fæst ekki í eftirlaunakerfum flestra vestrænna ríkja.
Með samningi fjölmennasta stéttarfélags á Íslandi um stóraukið lífeyrisöryggi hefur Ísland tekið hreina og klára forustu Vesturlanda á einu mikilvægasta sviði velferðar almennings. Það er fordæmi, að góðærið er notað til að tryggja fólki áhyggjulaust ævikvöld.
36 stunda vinnuvika verzlunarfólks er einnig bylting. Loksins er stigið stórt skref í átt til þeirra drauma, að vísindi og tækni, hagvöxtur og öryggisnet færi fólki aðgang að auknum frístundum. Fjögurra daga vinnuvika er loksins komin í augsýn hér á landi.
Það er ein harðasta kenning markaðssinnaðra hagfræðinga, að þjóðir geti ekki leyft sér að stytta vinnuvikuna vegna samkeppni annarra þjóða með lengri vinnuviku. Frakkar hafa undanfarið verið átaldir fyrir að hafa frumkvæði að því að rjúfa 40 stunda múrinn.
Ekki hafa rætzt hrakspár um erfitt gengi Frakka. Þvert á móti er rífandi gangur í atvinnulífi Frakka, meiri en hjá öðrum stórþjóðum Evrópu. Stytting vinnuvikunnar hefur ekki reynzt vera sá skratti, sem markaðssinnaðir hagfræðingar hafa málað á vegginn.
Í stað gömlu taxtanna koma nú 90.000 króna lágmarkslaun verzlunarmanna og frjálsir samningar þar fyrir ofan. Þetta eru markaðslaun með gólfi, sem lyftir lægst launuðu hópunum. Þekkt krafa úr þjóðmálunum er orðin að raunveruleika hjá verzlunarfólki.
Með kjarasamningi verzlunarmanna er staðfest, að gegn ráðum markaðssinnaðra hagfræðinga verður komið á fót gólfi, sem skilgreinir lágmark mannsæmandi lífskjara. Þetta munu önnur stéttarfélög áreiðanlega telja vera fordæmi, hvað sem atvinnurekendur segja.
Félagsmenn annarra stéttarfélaga eru smám saman að átta sig á byltingunni í kjarasamningi verzlunarfólks. Þeir munu þrýsta umboðsmönnum sínum í sömu átt, hvort sem viðsemjendum af hálfu atvinnurekenda líkar betur eða verr. Þannig virkar fordæmisgildið.
Dæmin, sem hér hafa verið rakin, sýna, að byltingin í kjarasamningi verzlunarmanna mun óhjákvæmilega enduróma um allt þjóðfélagið á næstu mánuðum.
Jónas Kristjánsson
DV