Breiðstræti og aðalgata borgarinnar er í rauninni fljót. Þar sem Canal Grande bugðar sig núna, var áður fyrr áll í Feneyjalóni. Á bökkum hans varð borgin til og frá upphafi hefur hann verið helzta samgönguæð hennar. Hann er varðaður um það bil 200 margra alda gömlum höllum á tæplega 4 kílómetra leið sinni um borgina.
Canal Grande er iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Almenningsbátar og leigubátar, lögreglubátar og sjúkrabátar, flutningabátar og útfararbátar, sorpbátar og gondólar eru sífellt á ferðinni fram og aftur. Á bökkunum bíður fólk eftir fari yfir vatnsgötuna eins og á rauðu ljósi í öðrum borgum.
Bátaleið 1 stanzar á flestum viðkomustöðum við Canal Grande. Flestar leiðarlýsingar hér eru miðaðar við bátastöðvarnar. Og fáir staðir í Feneyjum eru í meira en eins kílómetra göngufjarlægð frá einhverri bátastöðinni.
Við siglum frá járnbrautarstöðinni Santa Lucia, sem tengir Feneyjar við meginlandið, og ætlum til Markúsartorgs. Við förum auðvitað með leið 1, svokallaðri hraðferð, Accelerato, sem þekkist á því, að hún er hægari og kemur víðar við en aðrar leiðir.