Downtown
Bankahverfið, sem ýmist er kallað Financial District eða Downtown, er syðsti oddi Manhattan, þar sem borgin var stofnuð af hollenzkum landnemum, sem kölluðu hana Nýju Amsterdam. Nafnið Wall Street stafar af, að þar var í öndverðu veggurinn, sem Hollendingar reistu borginni til varnar gegn Indjánum.
Nú er Downtown samfelld hrúga turna úr stáli og gleri, stærsta
bankamiðstöð í heimi. Til skamms tíma var hverfið steindautt um helgar. En nú hefur verið komið upp vinsælli ferðamannaþjónustu við gömlu fiskihöfnina í South Street Seaport, komið upp stóru hóteli og nothæfum veitingahúsum í World Trade Center og verið að reisa lúxusíbúðir norðan við Battery Park, svo að fólk er nú orðið á ferli í Downtown um helgar.
Mjög lítið er af gömlum mannvirkjum í hverfinu, en þau, sem enn standa, verða helzta augnayndi okkar á einni gönguferðinni, sem lýst er aftar í þessari bók. Þau eru skólabókardæmi um, að gömul og hrörleg hús eru vinalegri og fallegri en glæsibyggingar nútímans. Eyðileggjendur Kvosarinnar í Reykjavík ættu að reyna að skilja þetta.
Skýjakljúfahverfið á þessum stað er að því leyti skemmtilegra en miðbæjarhverfið, að gatnakerfið er ekki eins og rúðustrikað blað, heldur fylgir gömlu reiðvegunum. Samt er auðvelt að rata, ef fólk tekur mið af skýjakljúfunum.