Plaza de España
Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España. Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.
Gran Vía
Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.
Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.