Capo og Consiglione

Greinar

Capo og Consiglione tala sín í milli um að fara í stríð við Afganistan og Írak í von um, að síðustu flugvélar hersins fari ekki frá Keflavíkurvelli. Þeir tala sín í milli um að láta endurskoða stjórnarskrána til að losna við ákvæði hennar um lagasynjunar- eða málsskotsrétt forseta Íslands.

Stjórnarfarið á Íslandi hefur þróazt úr þingræði í samleik Capo og Consiglione. Þeir tvímenningar spyrja hvorki kóng né prest og allra sízt Alþingi, hvort Ísland eigi fyrst að taka þátt í blóði drifnum krossferðum Bandaríkjanna gegn ríkjum múslima og síðan að taka þátt í hernámi þessara ríkja.

Er þó ævarandi hlutleysi slíkur hornsteinn utanríkisstefnu þjóðarinnar, að Ísland gat í upphafi ekki gerzt aðili að Sameinuðu þjóðunum, af því að þáverandi ráðamenn þjóðarinnar neituðu að lýsa stríði á hendur Þýzkalandi. Kúvendingin í utanríkisstefnunni fæddist fullbúin í tveggja manna tali.

Capo og Consiglione segjast vera að undirbúa breytingar á stjórnarskrá. Tvímenningarnir spyrja hvorki kóng né prest og allra sízt Alþingi, hvernig skuli breyta stjórnarskránni þannig, að forseti landsins geti ekki lengur skotið lögum til þjóðarinnar með því að synja þeim undirskriftar.

Capo og Consiglione eru á sama tíma að ráðgast um, hvernig megi haga þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin á þann hátt, að hún renni út í sandinn. Það gera tvímenningarnir til dæmis með því að setja hátt lágmark á þáttöku kjósenda. Þeir hafa þar fordæmi flugvallarmáls Reykjavíkurlistans.

Langur valdaferill Capo og Consiglione hefur falið í sér hrun þingræðis í landinu. Hvor um sig hefur sína hirð að baki sér, sem í stórum dráttum stendur með þeim gegnum þykkt og þunnt, allt frá lögum yfir öryrkja yfir í sértækar aðgerðir á borð við gullhúðuð eftirlaunalög fyrir Capo.

Valdahroki Capo og Consiglione er orðinn slíkur og svo flæktur stjórnmálaflokkunum að baki þeim, að þingræði verður ekki endurreist nema forsetinn fái gott endurkjör, fjölmiðlalög verði felld í haust og síðan verði flokkum Sjálfstæðis og Framsóknar hafnað í næstu þingkosningum.

Við þekkjum bulluskap og reiðiköst Capo, sem hringir með hótunum í embættismenn og leggur embætti þeirra niður til að ná sínu fram. Við höfum fylgzt með, hvernig Consiglione hefur breytzt í stríðsmálaráðherra á gæsagangi með tindátum á flugvelli kristna hernámsliðsins í Kabúl í Afganistan.

Eins og á Ítalíu hafa bullurnar á Íslandi misst jarðsamband. Umkringdar viðhlæjendum halda Capo og Consiglione sig vera guðum líkasta. Og þjóðin er loksins orðin þreytt á ruglinu.

Jónas Kristjánsson

DV