Carpe Diem

Veitingar

Góð matreiðsla skín gegnum grautarstælana á Carpe Diem, framúrstefnulegum, og hljóðbærum veitingasal Hótels Lindar við Rauðarárstíg. Hún lýsti sér m.a. í ljúfu nautaseyði með svartsveppaolíu, sem gaf indælt og frísklegt bragð í fennikkustíl. Súpan var utan seðils og sérlöguð handa gesti, sem neitaði einni af hinum hefðbundnu hveitisúpum íslenzkra veitingahúsa.

Grautarstælarnir eru í stíl hressilega groddalegra listaverka staðarins, sem gerð eru úr afgöngum frá vélaverkstæðum, svo sem tannhjólum og bílfjöðrum.

Upp af aðalréttum rís venjulega hraukur djúpsteiktra grænmetisþráða, aðallega úr graslauk og blaðlauk. Undir þráðunum ægir öllu saman í graut, fiski eða kjöti, hrásalati, léttsteiktu grænmeti og bakaðri kartöflustöppu, jóðlandi í fremur sætri sósu, oftast tómatsósu.

Fiskur dagsins var villtasta útfærsla þessarar einhæfu matreiðslu. Þar mátti finna í einum haug bita af karfa, lúðu, smokkfiski, hörpufiski og úthafsrækju, innan um hrásalat og léttsteikt grænmeti. Úr einni hlíð matarfjallsins skagaði bökuð kartöflustappa. Hver tónn var út af fyrir sig góður, en grauturinn í heild var samfelld lagleysa.

Þetta sérstæða og tæpast lystuga þema endurtekur sig í hverjum rétti á fætur öðrum og hefur þann kost einan að vera öðru vísi en annars staðar. Staðurinn vill skera sig úr og tekst það alla leið frá A til Ö.

Innréttingar eru kuldalegar, úr steinflísum, stáli og gleri, studdar skemmtilegri vélsmiðjulist og nýtízkulegum næfurljósum, innan um gula og rauða málningu. Sívalt og áberandi vínrekks-altari úr stáli í miðjum sal gefur tón, sem endurómar yfir í matreiðsluna.

Upphaflega var hún í hávaðasömum og kalifornískum Ítalíustíl, en hefur smám saman hneigzt nær hinni hefðbundnu og leiðigjörnu miðju íslenzkrar veitingamatreiðslu. Fátt er á breytilegum matseðli, sem getur hrist upp í fólki, nema væri humarinn með svörtu pasta og bleksósu, er hentar fremur með kolkrabba en humar.

Stundum er sjávarfangið fremur mikið eldað, svo að það verður seigt, til dæmis úthafsrækjur og smokkfiskur. Í annan tíma og oftar er það hæfilega snöggt eldað, en yfirleitt yfirgnæft í bragði af frekjulegu sósu- og meðlætisjukki.

Leifar frá Ítalíustílnum sjást fremur í nöfnum en innihaldi. Svonefnt carpaccio var ólíkt kryddlegnum nautasneiðum upprunalandsins, þykkar sneiðar, jóðlandi í sósu. Tiramisú ostakakan var þessi venjulega búðarkaka, sem hér á landi minnir lítið á Feneyjar. Espresso-kaffið var úr nýmóðins vél, sem mjólkar ágætu kaffi, en ekki espresso. Venjulega kaffið var betra

Þjónusta er fagleg og elskuleg, dósatónlist er þægileg, sérstaklega Johnny Cash, stólar eru í tæpu meðallagi þæginda, dúklausar borðplötur úr gleri eru án diska fyrir volgar heilhveitikollur, sem koma með flugvélasmjöri í körfu. Munnþurrkur úr pappír eru þykkar og góðar.

Miðjuverð þriggja rétta með kaffi er groddalegt eins og listaverkin, hefur farið hækkandi að undanförnu og er nú um 3250 krónur á mann. Súpa, réttur dagsins og kaffi kosta í hádeginu 1150 krónur, sem er öllu aðgengilegra. Glas af frambærilegu húsvíni kostar 330 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV