Carpe Diem

Veitingar

François Fons ætti að stofna sérstaka matstofu fyrir sína skemmtilegu sérvizku, sem oft er bragðgóð. Hann hefur jafnan verið með fyrstu kokkum til að taka upp franskar nýjungar, svo sem nýfrönsku, léttu eldamennskuna fyrir tæpum tveimur áratugum og þá sveitafrönsku fyrir einum áratug. Hann getur áreiðanlega náð í viðskiptavini, ef hann rífst ekki of mikið við þá.

Fons hefur rekið inn nefið á ýmsum veitingastöðum og ekki alltaf staðið lengi við. Þess vegna er erfitt að benda á hann sem aðdráttarafl fyrir Carpe Diem. Hann getur verið farinn annað þegar þessi texti er lesinn. Auk þess er hann eðlilega ekki alltaf við. Í slíku tilviki kom dapurleg matreiðsla mér óþægilega á óvart.

Bourride-fiskisúpa hafði ekki snefil af fiskibragði og bragðaðist raunar eins og kokkurinn hefði misst saffran-staukinn ofan í súpuna, á jaðri þess að vera óæt. Skötuselur “að hætti François Fons” var eldaður sundur og saman, bragðlaus og borinn fram í ólystugum meðlætishaug. Lauksúpa “að hætti Halles” var mild og hversdagsleg laukssúpa með ristarbrauðsþaki. Betra var ofnsteikt íslenzkt grænmeti í eigin safa og balsamediki, kaldur og skemmtilegur forréttur. Góður var einnig meyr smokkfiskur með papriku og hvítlauk í góðri sósu þurrkaðra tómata.

Saltfiskur var fínn, borinn fram með olíuleginni sítrónu, bragðsterkri bökusneið kaldri og skinkubitum, baunagraut og ljósgulum, litlum baunum. Pönnusteiktar steinbítsræmur voru góðar, bornar fram með miklu af perlulauk og sveppum í brúnni og yfirgnæfandi Búrgundarsósu góðri. Hunangsgljáð og rósmarínkrydduð kjúklingabringa var meyr, borin fram í óviðkunnanlegum meðlætishaug með kartöfluþynnum og brúnni sósu. Verri var ofnsteiktur, grár og feitur lambahryggur á pönnusteiktum kartöfluþynnum undir haug af brúnni sósu.

Tatin-tertan var heit, en ekki köld og fólst í hálfum, bökuðum eplum, en nánast engu deigi og minnti lítið á uppskriftina. Karamellukrem var vanillubúðingur án karamellubragðs og karamellumarineraðar appelsínur voru súrar appelsínusneiðar án karamellubragðs.

Rauða og gula þemað í innréttingum Carpe Diem hefur verið eflt til að reyna árangurslaust að gera staðinn hlýlegri. Vélsmiðjuskreytingarnar hafa verið dempaðar, meðal annars með því að fjarlægja járnsoðinn vínrekk á miðju gólfi. Samt er þetta enn kaldur og stemmningarsnauður hótelsalur.

Hátt verðlag, 3.600 krónur fyrir þríréttað með kaffi, hæfir ekki tilviljanakenndri og brokkgengri matreiðslu staðarins og freistar ekki einu sinni embættismanna utanríkisráðuneytisins handan götunnar.

Jónas Kristjánsson

DV