Caruso

Veitingar

Heimsverð í Bankastræti

Kokkurinn í Caruso við Bankastræti fattaði í eitt skiptið, hvað ég var að gera. Þá hlífði hann pönnusteikta fiskinum við örbylgjuofninum, sem tekur allt bragð úr fiski, ef frysting er ekki þegar búin að því. Að öðru leyti kom allur steiktur matur snarpheitur úr örbylgjuofni, miklu heitari en pönnusteiktur matur er venjulega og æskilega.

Caruso er með skárri stöðum, sem segjast vera ítalskir út á mikið framboð á pöstum, 1700 krónur, og pítsum, 1600 krónur. Eins og Ítalía er þetta tæplega þriggja stjörnu staður, notar ekki frosinn fisk, betri en nýju staðirnir, sem skjóta víða rótum til að liggja í leyni fyrir túrhestum, einkum við Laugaveginn. Caruso er líka næstdýrastur þessara staða, 5100 krónur, ef snætt er þríréttað með vatni. Hádegisverð er 1350 krónur fyrir súpu og aðalrétt.

Flest er eins og það hefur alltaf verið, þar með matseðill. Sveppahattar með gráðosti og hvítlauk hafa verið þar frá upphafi, snarpheitir með yfirgnæfandi ostbragði. Hversdagslegt fransbrauð er enn borið á borð í miklu magni með smjöri í álpökkum. Borðin eru ber og þurrkur eru úr pappír. Sumt hefur þó batnað, þjónustan er skólaðri og ljósin nægja til að lesa matseðla. Sumt hefur versnað, ekki er lengur hægt að fá risotto og kitsið hefur aukizt í gluggum og hillum.

Matreiðslan á Caruso er syndandi gamaldags, mest pönnusteikt. Rauðspretta eða steinbítur kom á borð með pönnusteiktum kartöfluplöttum og laukgrænmeti, svo og ágætu hrásalati. Allt synti þetta í miklu smjöri í bland við hvítlaukssósu. Súpa dagsins var frönsk lauksúpa eins og á Borginni fyrir hálfri öld. Panna Cotta búðingur var með afar daufu sítrónubragði, með ferskum berjum og vel þeyttum rjóma. Espresso kaffi var ekta, aðeins beizkt og gott.

Hafa má það til marks um, hversu marklausar eru veitingar hér á landi, að verðið á la-la stað eins og Caruso er hærra en á beztu matstöðum í New York. Það er ekki við að búast, að Íslendingar fari mikið út að borða. Ekkert vit er í að borga 5100 krónur fyrir hversdagsmat, áður en kemur að kaffi og víni.

Jonas Kristjansson

DV