Þá er það upplýst. Bandaríkjastjórn hefur logið gereyðingarvopnum upp á Íran eins og hún laug þeim upp á Írak. Undir forustu Cheney varaforseta ætlar hún í stríð við Íran, hvað sem meirihluti demókrata segir á þinginu. Þetta segir Seymour Hersh í nýjum New Yorker. Og Hersh er ekki nóboddy. Hann er bezti rannsóknablaðamaður heims, hefur áratugum saman haft rétt fyrir sér, allt frá fjöldamorðunum í My Lai til pyndinganna í Abu Gharib. Hann var fyrstur með fréttina um segulbönd Nixons forseta. Hersh segir leyniþjónustuna CIA hafa samið skýrslu um, að Íran sækist ekki eftir atómvopnum.