Condoleezza Rice

Greinar

Fréttaskýrendur sögðu á sínum tíma, að Colin Powell væri eini fullorðni maðurinn innan um róttæklinga stjórnar George W. Bush. Hann væri hirðirinn, sem gengi um glervörubúðina og sópaði hana, þegar fílar harðlínumanna hefðu brotið allt og bramlað. Hann einn talaði tungumál, sem Evrópumenn skildu.

Powell var einangraður í ríkisstjórninni. Hann var til dæmis hræddur við innrásina í Írak og vildi samráð við bandamenn í Atlantshafsbandalaginu. Hann vildi halda starfinu og beið við símann eftir kosningar, en forsetinn hringdi aldrei. Bush taldi vera orðið tímabært að losa sig við fílahirðinn.

Í staðinn er kominn öryggisfulltrúinn Condoleezza Rice, sem hugsar eins og forsetinn og botnar málstirðar setningar hans. Hún er trúarofstækismaður, sem situr á morgunfundum forsetans með Guði, þar sem lögð er harðlína gagnvart útlendingum, einkum villutrúarmönnum af meiði Múhameðs.

Nú eru engar efasemdir lengur í ríkisstjórn George W. Bush. Aðstoðarmaður Rice verður róttæklingurinn John Bolton, mesti haukurinn í Washington. Lögregluráðherra verður Alberto Gonzales, heimilisvinur Bush, sem samdi lögfræðiskýrslu um, að Genfarsáttmálinn væri úreltur og pyndingar væru í lagi.

Utanríkisstefnu Bandaríkjanna er stjórnað af Bush forseta, Rice utanríkisráðherra, Cheney varaforseta og Rumsfeld stríðsráðherra með stuðningi Gonzales lögregluráðherra, Bolton aðstoðarutanríkisráðherra, Goss leyniþjónustustjóra og ofbeldisprédikurunum Abrams og Wolfowitz.

Heimsmynd hinnar nýju ríkisstjórnar er hrein og einföld. Bandaríkjamenn eru fulltrúar Guðs á jörð, yfir allt mannkyn hafnir. Þeir mega haga sér eins og þeir vilja, ráðast inn í þriðja heims ríki á upplognum forsendum. Þeir mega stunda stríðsglæpi og fjöldamorð, af því að Guð hefur sagt það.

Evrópumenn eru taldir hafa yfirgefið Guð og eru ekki taldir marktækir. Ekki einu sinni Tony Blair í Bretlandi fær neitt fyrir að sleikja ökla Bush í fjögur ár. Það er ekki í sjóndeildarhring ráðamanna Bandaríkjanna að þakka öðrum ríkjum fyrir neitt. Þau eiga að hlýða kalli eftir þörfum.

Barnalegt er að trúa blint, að George W. Bush muni efna loðin loforð um að flytja ekki flugvélar frá Keflavík. Það eykur ekki líkurnar, að Davíð Oddsson biðji niðurlægðan Colin Powell um það, því að róttæklingar nýju stjórnarinnar fyrirlíta Powell og samningastefnu hans gagnvart Evrópu.

Condoleezza Rice er dæmi um, að Bandaríkin eru orðin að mestu ógn nútímans við mannkynið og framtíð þess. Fólk, sem annars staðar væri á hæli, er við stjórnvöl Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV