Daðrað við kjarna málsins

Greinar

Bezta ráðið til að bæta lífskjörin til langs tíma er að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Því minna, sem kosta þarf til framleiðslu á vöru og þjónustu, að beinum launum starfsmanna frátöldum, þeim mun meiri hluti andvirðisins er til ráðstöfunar í lífskjörin.

Í fróðlegu riti, sem var að koma út á vegum Vinnuveitendasambandsins, Samtaka iðnaðarins og samtaka evrópsks iðnaðar, er borin saman samkeppnishæfni atvinnulífs Íslendinga og helztu auðþjóða heims. Þar kemur fram, að við stöndum að mörgu leyti vel að vígi.

Af neikvæðum atriðum sker helzt í augu, að vextir eru tveimur prósentustigum hærri en þeir eru í samkeppnislöndunum. Þetta eykur fjármagnskostnað atvinnulífsins, einkum þeirra fyrirtækja, sem eru að auka rekstur sinn og leggja út á nýjar og spennandi brautir.

Vaxtamunur Íslands og Evrópu mun aukast, þegar evran kemur til sögunnar um næstu áramót. Margvíslegt hagræði af völdum hennar mun lækka vexti í samkeppnislöndum okkar um hálft prósentustig, en ekki hér á landi. Munurinn fer því í hálft þriðja stig.

Veigamesta ástæða hárra vaxta er illa rekið bankakerfi með hrikalegum afskriftum útlána vegna óráðsíu bankastjóra og bankaráða í vali gæludýra sinna. Þessarar ástæðu er ekki getið í ritinu, þótt hún valdi óeðlilega miklum mun á innláns- og útlánsvöxtum.

Ekki þýðir að lækka vexti með handafli, því að þeir þurfa að fylgja framboði og eftirspurn fjármagns. Unnt er að hafa áhrif á jafnvægið með því að halda niðri þorsta ríkisins í lánsfé, efla sparnaðarhvata í reglum um sparifé og taka upp evruna sem gjaldmiðil.

Einnig sker í augu, að útgjöld þjóðfélagsins til rannsókna og þróunarstarfs eru mun lægri hér á landi en í samkeppnislöndunum. Þetta heftir útþenslu hátæknigreina, sem borga mönnum hátt kaup, og varðveitir lágtekjugreinar á borð við landbúnað.

Í ritinu er ekki fjallað um óhagræðið, sem stafar af stuðningi ríkisins við lágtekjugreinar. Með beinum styrkjum, innflutningsbanni og tollum ver þjóðfélagið einum til tveimur tugum milljarða króna á hverju ári til að hindra þróun úr landbúnaði til hátekjugreina.

Bent er á, að ríkið þurfi að gæta hófs í mannahaldi, útgjöldum og skattlagningu. Ekki er samt nefnd bezta leiðin til þess. Hún er sú að lækka venjulega skatta á fólk og fyrirtæki með því að láta auðlindaskattinn renna til ríkisins, en ekki milli fyrirtækja í sjávarútvegi.

Margt er í betra horfi hér en hjá helztu auðþjóðum heims. Lífeyrissjóðakerfið er komið í góðan farveg, sem ekki ýtir vandanum inn í framtíðina. Launatengdur kostnaður er samt tiltölulega hóflegur hér á landi. Atvinnuleysi er lítið og atvinnuþátttaka mikil.

Skýrsluhöfundar telja réttilega, að sveigjanleiki sé að ýmsu leyti meiri í hagkerfi okkar en annarra þjóða. Fólk telur ekki eftir sér að flytja búferlum í átt til tækifæranna. Hlutastörf eru tiltölulega algeng. Takmarkanir á sveigjanleika á vinnumarkaði eru tiltölulega vægar.

Ritið daðrar víða við kjarna málsins, en segir ekki fullum fetum, að stórtækustu aðferðirnar við að auka samkeppnishæfni Íslands felist í hreinsun bankakerfisins, alþjóðlegum uppboðum veiðileyfa í sjávarútvegi og afnámi sértækra afskipta ríkisins af atvinnuvegum.

Sameiginlegt einkenni ýmissa beztu leiðanna er, að þær fela í sér, að ríkið dragi sig í hlé sem skömmtunarstjóri verðmæta og verndari gæludýra í atvinnulífinu.

Jónas Kristjánsson

DV