Dæmið gengur ekki upp

Greinar

Nánast öll auðríki heims önnur en Bandaríkin leggja 8­10% landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála. Þetta eru sömu fjárhæðir á mann, því að ríkidæmi þjóðanna er svipað. Þar sem Ísland er í hópnum, ættu heilbrigðismál okkar að vera í eins konar jafnvægi.

Laun eru 65­70% af kostnaði heilbrigðisstofnana hér á landi eins og í hinum löndunum í sama flokki. Af því mætti ætla, að kjör starfsfólks sjúkrastofnana væru svipuð hér á landi og í nágrannalöndunum. En það dularfulla í málinu er, að svo er alls ekki.

Við búum við þrálátt styrjaldarástand í kjaramálum starfsfólks sjúkrastofnana, sem segir, að hliðstæð kjör séu mun hærri í löndum með sama tekjustig og sama hlutfall heilbrigðiskostnaðar af heildarkostnaði. Þessa dagana höfum við horft á einn slaginn í því stríði.

Einfaldast er að telja skýringuna felast í að kostnaður heilbrigðisstofnana dreifist á fleiri starfsmenn hér á landi en í nágrannalöndunum og minna komi því til skiptanna á hvern starfsmann. Meðan annað kemur ekki í ljós, er eðlilegt að hafa þetta fyrir satt.

Annaðhvort felur þetta í sér yfirmönnun á sumum heilbrigðisstofnunum eða þá að sumpart er verið að sinna öðrum og töluvert mannfrekari verkefnum en í nágrannalöndunum. Fróðlegt og nytsamlegt væri að rannsaka, að hve miklu leyti hvor skýringin stenzt.

Sums staðar úti á landi eru sjúkrahús notuð sem þáttur í byggðastefnu. Þar er fjölmennt starfslið við tiltölulega einfalda heilbrigðisþjónustu, sem í sumum þáttum rambar á jaðri elliheimilisrekstrar. Kostnaður á sjúkling eða legudag er óeðlilega hár á þessum stöðum.

Sums staðar í þjóðfélaginu er boðin einföld heilbrigðisþjónusta á tiltölulega lágu verði, 6.000 krónur á sjúkling á dag, svo sem á heilsustofnuninni í Hveragerði. Á sumum öðrum stöðum er ríkið að borga 10­20.000 krónur á sjúkling á dag fyrir svipaða þjónustu.

Það athyglisverðasta við þennan samanburð er, að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki sýnt frambærilegan áhuga á að nýta sér sem mest þær stofnanir, sem minnst taka fyrir þjónustuna. Þrálátur fjárskortur hefur ekki eflt kostnaðarvitund þess hrjáða ráðuneytis.

Eðlilegt er, að sérhæfð sjúkahúsþjónusta kosti mikið, í sumum tilvikum meira en 20.000 krónur á dag. Þá er spurningin sú, hvort ákvarðanir um slíka þjónustu séu teknar hér á landi með öðrum og sjálfvirkari hætti en tíðkast í öðrum löndum á sama tekjustigi.

Þar sem sérhæfð sjúkrahúsþjónusta er umtalsverður og vaxandi hluti heilbrigðiskostnaðar þjóðarinnar, er eðlilegt, að einhvers staðar í kerfinu sé kannað, hvort við leyfum okkur meiri útgjöld á afmörkuðum sviðum heldur en menn leyfa sér í nágrannalöndunum.

Við lifum á tímum, þar sem tækni og efnafræði hafa fært okkur meiri tækifæri til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, en kerfið stendur undir. Þetta misræmi hefur leitt til þess, að nú verður að forgangsraða verkefnum. Við verðum að sætta okkur við að sumt sé of dýrt.

Forvígismenn í heilbrigðismálum hafa getað leyft sér að ræða þetta viðkvæma mál á ráðstefnum og gera ekkert í því. Nú er slíkt ekki lengur hægt, því að starfsfólk heilbrigðisstofnana hefur fundið leið til að minnka kjaramun Íslands og nágrannalandanna.

Ört vaxandi fjárskortur heilbrigðisgeirans hlýtur að þvinga ráðamenn til að finna, á hvaða sviðum hans við leyfum okkur meiri munað en aðrar auðþjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV